Ákvörðun bæjarstjórnar felld úr gildi

Mynd: Magnús Karel Hannesson
Mynd: Magnús Karel Hannesson

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss um að hafna beiðni Sveitarfélagsins Árborgar um leyfi til að bora rannsóknarholu á vatnstökusvæði sínu við rætur Ingólfsfjalls.

Málið á sér langa sögu en bæjarstjórn Ölfuss hafnaði beiðninni þann 26. september 2013. Í kjölfar umsóknar Árborgar, óskaði Árborg einnig eftir því að taka eignarnámi land á svæðinu sem landeigendur höfðu mótmælt harðlega. Bæjarstjórn Ölfuss samþykkti því samhljóða að leggjast gegn frekari tilraunaborholum á svæðinu á meðan málið væri í þessu ferli.

Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að þarna sé um „tvö aðskilin mál að ræða og því ekki hægt að synja um framkvæmdaleyfi á umræddum forsendum.“

Árborg hefur nú afturkallað eignarnámsbeiðni sína, sem lá fyrir í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu og getur Árborg nú lagt að nýju inn umsókn um framkvæmdaleyfi til Sveitarfélagsins Ölfuss.

Úrskurðinn í heild má lesa hér.