Digiqole ad

Heilsa og vellíðan: Döðlukaka með karamellusósu

 Heilsa og vellíðan: Döðlukaka með karamellusósu

heilsa_og_vellidanDöðlukaka með karamellusósu er alls ekki ný af nálinni né uppskriftir af henni. Mér fannst hinsvegar alveg vanta uppskrift af henni fyrir okkur sem borðum ekki glúten, mjólkurvörur og unninn sykur. Ég tók því málin í mínar hendur og útbjó þessa uppskrift svo að við getum öll verið með í döðlukökuæðinu. Þessi kaka er hreinn unaður á bragðið og er hún mjög fljót að hverfa á mínu heimili.

Döðlukaka Anna GuðnýÉg elska að nota döðlur í uppskriftir og nota þær sem sætugjafa. Það gengur mjög vel upp í þessari uppskrift og er ilmurinn á heimilinu dásamlegur þegar að kakan er að bakast. Mér finnst mjög mikilvægt að setja ekki of mikið af sætu í uppskriftir og vil ég að sætan sem ég nota sé sem minnst unnin. Þegar maður minnkar sætu í uppskriftum þá venst maður því að hafa gotteríið ekki alveg dísætt en um leið finnst manni það alveg nógu sætt.

Döðlukaka

 • 100g kókosolía
 • 2 msk kókospálmasykur
 • 2 egg við stofuhita
 • 200g döðlur
 • 1 tsk matarsódi
 • 150g möndlumjöl
 • 1 1/2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1/8 tsk salt
 1. Kveiktu á ofninum og stilltu hann á 180°C við blástur.
 2. Byrjaðu á því að skera döðlurnar gróft niður og settu þær síðan í pott. Láttu vatn (ca. 200ml) rétt fljóta yfir þær. Hrærðu vel í þessu þegar suðan kemur upp svo þetta verði að flottu mauki.
 3. Þegar döðlumaukið er tilbúið skaltu leyfa því að kólna aðeins. Bættu síðan matarsódanum saman við döðlumaukið og hrærðu honum vel saman við. Settu döðlumaukið til hliðar.
 4. Þeyttu kókosolíuna og kókospálmasykurinn vel saman.
 5. Bættu síðan eggjunum saman við. Það gætu myndast kekkir þegar að eggið blandast við kókosolíuna en þeir hverfa leið og volgt döðlumaukið kemur saman við.
 6. Skelltu döðlumaukinu nú saman við hin blautefnin og blandaðu vel saman.
 7. Bættu nú möndlumjölinu, vínsteinslyftiduftinu og saltinu saman við.
 8. Þegar allt er vel blandað saman setur þú blönduna í smjörpappírsklætt form. Ég notaði hringlaga smelluform sem er 24 cm í þvermál.
 9. Bakaðu í 35-40 mín í ofninum. Leyfðu kökunni svo að kólna.

Döðlukaka Anna GuðnýKaramellusósa

 • 50 g kókosolía
 • 40 g kókospálmasykur
 • 100 ml kókosmjólk
 • 1/4 tsk vanilluduft
 • 1/6 tsk salt
 1. Skelltu öllum innihaldsefnunum saman í pott áður en þú kveikir á hellunni.
 2. Kveiktu á hellunni og hrærðu vel í þessu svo allt blandist vel saman. Ekki fara frá pottinum.
 3. Leyfðu suðunni að koma upp og leyfðu þessu síðan að malla aðeins.
 4. Taktu pottinn af hellunni og leyfðu karmellunni að kólna.

Það er langbest að bera karmelluna fram í sér könnu og setja á hverja sneið fyrir sig. Mér fannst kakan of blaut þegar ég hellti henni yfir alla kökuna og karmellan hvarf.

Anna Guðný
Heilsa og vellíðan