Baldur Dýrfjörð lofar miklu stuði í Ísland got talent

baldur_gottalent01Seinna undanúrslitakvöld Ísland got talent fer fram næsta sunnudag og þar mun fiðlusnillingurinn og Þorlákshafnarbúinn Baldur Dýrfjörð stíga á svið.

Baldur komst í gegnum áhorfendaprufurnar þegar hann heillaði fjóra dómarana og fékk fjögur já þegar hann flutti titillag Pirates of the Caribbean. Í þeim þætti tilkynnti Baldur að hann væri búinn að panta rafmagnsfiðlu til að spila á síðar í keppninni.

„Ég var búinn að gefa það út að ég ætlaði að nota rafmagnsfiðluna í þessu atriði en svo tók ég þá ákvörðun að nota hana ekki þar sem hún einfaldlega hljómar ekki jafn vel og hin” sagði Baldur í viðtali við Hafnarfréttir. Það ætti þó að vera í lagi þar sem hann hefur staðið sig frábærlega hingað til.

Baldur mun spila lagið Smooth Criminal með Michael Jackson, með smá fiðlusólói í upphafi og að hans sögn mun atriðið einkennast af miklu stuði. „Æfingarnar hafa gengið mæta vel, enda fæ ég mikla hjálp frá algjörum sérfræðingum. Selma Björnsdóttir hefur aðstoðað mikið með choreographið og svo hef ég fengið mikla hjálp frá Vigni í stúdíóinu með að búa til undirspilið.”

Baldur vonast til að komast áfram í úrslitin þar sem hann er með nokkra ása í erminni fyrir úrslitaatriðið. „Við skulum bara segja að ef fólk er duglegt að kjósa mig þá má það búast við að ég verði ekki eini Þorlákshafbarbúinn á sviðinu í úrslitunum.“

Hafnarfréttir benda lesendum á facebook-síðu Baldurs og hvetjum við alla til að styðja við bakið á honum með því að hringja eða senda SMS í síma 900-9001 á sunnudaginn.

Þátturinn er sýndur á Stöð 2 og byrjar kl. 19:35.