Er best að búa í Ölfusi?

dolos01Viðskiptaráð Íslands hefur látið útbúa ansi skemmtilegan vef þar sem einstaklingar geta borið saman kostnaðinn við að búa í mismunandi sveitarfélögum á landinu. Tilgangur verkefnisins er að auka gagnsæi um skattheimtu, gjöld og skuldsetningu á sveitarstjórnarstiginu.

Á vefnum www.bestadbua.vi.is geta einstaklingar sett inn upplýsingar eins og fjölskyldusamsetningu, tekjur og stærð húsnæðis og fengið út hvaða sveitarfélag er hagstæðast fyrir það að búa m.v. þessar forsendur.

Sem dæmi:

  • Foreldrar og þrjú börn
  • Eitt barn er í leikskóla og 2 í grunnskóla.
  • Samanlögð laun foreldrana eru 600.000 kr. fyrir skatt
  • Fjölskyldan býr í 160 fm. húsi í Ölfusi

Þegar þessar upplýsingar eru settar inn í kerfið þá kemur í ljós að Ölfus er í 15. sæti yfir þau sveitarfélög þar sem hagstæðast er fyrir þessa fjölskyldu að búa.

Athygli er þó vakin á því að þarna er einungis verið að miða við ákveðnar fjárhagslegar forsendur. Þegar einstaklingar ákveða búsetu og meta hvar best er að búa er auðvitað margt annað sem tekið er með í reikninginn eins og gæði þjónustu, staðsetning, atvinnusvæði, íþróttaaðstaða og samfélagið í heild svo eitthvað sé nefnt.