Svanhildur sigraði í teiknimyndasamkeppni

svanhildur01Fyrir lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í sjöunda bekk, á svæði skólaþjónustu Árnesþings og skólaþjónustu Árborgar, sem fram fór í Hveragerði í mars sl. var sent út boðskort sem Svanhildur Sigurðardóttir nemandi okkar í sjöunda bekk teiknaði.

Við hátíðlega athöfn lokahátíðarinnar fékk hún viðurkenningarskjal og verðlaun „fyrir bestu myndina í teiknisamkeppni um boðskort á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í mars 2016″ eins og ritað er á skjal og bók sem hún fékk að gjöf.

Svanhildur var spurð að því hvernig það kom til að hún teiknaði boðskortið.
Magnþóra myndlistarkennari sagði okkur að við ættum öll að gera boðskort fyrir Stóru upplestrarkeppnina.
Hvernig varð hugmyndin að boðskortinu til hjá þér?
Það er dálítið erfitt að svara þessu. Fyrst vissi ég ekkert hvað ég ætti að gera en ég sá að flestir krakkarnir voru að gera það sama – einhver að lesa bók. Þannig að mér datt í hug að hafa þetta allt örðuvísi og fékk hugmyndina að teikna eldfjall sem gýs bókum.
Varðstu hissa á að fá verðlaunin?
Já ég var hissa. Ég átti ekki von á að sigra, ég var bara eitthvað að leika mér að teikna af því að okkur var sagt að gera það.
Hver voru verðlaunin?
Ég fékk viðurkenningingarskjal og myndlistarbók eftir Eggert Pétursson þar sem hann teiknar mjög flottar blóma- og náttúrumyndir.
Finnst þér viðurkenningin hafa eitthvað að segja fyrir þig?
Ég var mjög ánægð að fá þessi verðlaun. Ég teikna frekar mikið og viðurkenningin hjálpar mér að sjá að ég get alveg teiknað.
Ætlarðu að halda áfram að teikna?
Já ég hef verið að spá í að fara í myndlistarnám en ég er ekki alveg viss. Mig langar líka að gera ýmislegt annað í framtíðinni.

Við óskum Svanhildi innilega til hamingju með þessa skemmtilegu hugmynd að boðskortinu og með verðlaunin.

Frétt af vef Grunnskólans í Þorlákshöfn.