Landgræðslan fékk umhverfisverðlaun Ölfuss

Mynd: Sunnlenska/MHH
Mynd: Sunnlenska/MHH

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, afhenti Landgræðslunni umhverfisverðlaun Ölfuss við hátíðlega athöfn í húsakynnum Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi á sumardaginn fyrsta. Þetta var í sjötta sinn sem Sveitarfélagið Ölfus veitir þessi verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í umhverfsmálum.

Forsætisráðherra rakti sögu sandgræðslu við Þorlákshöfn og sagði að samfélagið í Þorlákshöfn ætti landgræðslustarfi tilvist sína að þakka. Sigurður Ingi sagði að í upphafi landgræðslustarfs í Þorlákshöfn hefðu aðeins tvær fjölskyldur búið á staðnum en nú væri þar mikil útgerð, fiskvinnsla og blómlegt mannlíf með á annað þúsund íbúa.

Ráðherra gat um að ávallt hefði verið frábært og umfangsmikið samstarf á milli Landgræðslunnar og sveitarfélagsins um uppgræðsluframkvæmdir. Verðlaunagripinn gerði Dagný Magnúsdóttir úr Þorlákshöfn.