Ólafur Arnalds og Kammerkór Suðurlands við upptökur í Strandarkirkju

olafurarnalds_kammerkorsudurlandsTónlistarmaðurinn og Baftaverðlaunahafinn Ólafur Arnalds var við upptökur í Strandarkirkju í Selvogi í gær ásamt Kammerkór Suðurlands.

Ólafur Arnalds er þessa dagana að vinna að verkefni sem kallast Islands Songs þar sem hann ferðast á sjö mismunandi staði á Íslandi á sjö vikum og tekur upp lag og myndband með listamönnum frá hverjum stað. Afraksturinn er síðan birtur á heimasíðu Island Songs hvern mánudag í sjö vikur en það er leikstjórinn Baldvin Z sem leikstýrir myndböndunum.

Selvogurinn var þriðji viðkomustaðurinn í ferðinni en áður hefur hann heimsótt Hvammstanga og Önundarfjörð.

Upptökurnar með Kammerkór Suðurlands koma inn á heimasíðu Island Songs næsta mánudag og verður gaman að sjá útkomuna.

Fyrir þá sem ekki vita þá hlaut Ólafur Arnalds hin merku Bafta verðlaun fyrir tónlist sína í sjónvarpsþáttunum Broadchurch árið 2014. Hann var síðan tilnefndur aftur árið 2016 fyrir tónlistina við þáttaröð tvö af Broadchurch.