Digiqole ad

„Ég sé alveg fyrir mér að þetta gæti orðið öflugra sveitarfélag“

 „Ég sé alveg fyrir mér að þetta gæti orðið öflugra sveitarfélag“

gunnsteinn_hveragerdiGunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Ölfusi segir að sameiningarmál séu ekki efst á baugi í Ölfusi en telur að Hveragerðisbær og Ölfus eigi margt sameiginlegt og að ef þessi sveitarfélög sameinist þá geti það orðið öflugri eining fyrir vikið. Þetta kemur fram í viðtali við Gunnstein í tímaritinu Sveitarstjórnarmál.

„Þegar vel gengur hugsa menn síður um eða ræða sameiningu. Vegna landafræðinnar er þó ekkert óeðlilegt að rætt sé um sameiningu við Hveragerðisbæ. Það sveitarfélag er landlítið og vaxtarmöguleikar þess takmarkaðir af þeim sökum,“ sagði Gunnsteinn.

„Ég sé alveg fyrir mér að þetta gæti orðið öflugra sveitarfélag yrðu þessi tvö sameinuð og við eigum samstarf við Hvergerðinga um ýmsa þætti. Ég get nefnt í því sambandi að við rekum bæði leik- og grunnskólann í Hveragerði saman. Við eigum 9% hlutdeild í leikskólanum og 14% í grunnskólanum. Þetta kemur til af því að mun auðveldara er fyrir börn úr Ölfusinu að sækja skóla í Hveragerði en niður í Þorlákshöfn. Þá má nefna að Garðyrkjuskólinn stendur í Sveitarfélaginu Ölfusi en ekki í Hveragerðisbæ. Eftir því sem ég best veit hefur samstarf sveitarfélaganna tveggja einkennst af góðum samstarfsvilja og vinnu við að ná árangri.“

Gunnsteinn telur að sameining við Grindavíkurbæ sé langsóttari leið þó svo að samfélögin séu margt lík. Hann telur einnig að skoða megi fleiri hluti þegar kemur að umræðu um sameiningar.

„Annað sem ég tel að mætti skoða þegar sameiningar- og samstarfsmál ber á góma er að við erum með mjög góða höfn, sem með tiltölulega litlum tilkostnaði mætti gera enn betri. Við erum ekki hluti af Faxaflóahöfnum en ef grannt er skoðað þá er þetta í raun og veru eitt hafnarsvæði – ofan af Akranesi og austur til Þorlákshafnar,“ sagði Gunnsteinn í samtali við Sveitarstjórnarmál.