Reyndi að hrifsa barn inn í bíl til sín

logregla01Á Facebook-síðunni „Íbúar í Þorlákshöfn“ eru foreldrar barna í Þorlákshöfn varaðir við einstaklingi sem hefur reynt að lokka til sín börn seinustu daga í bænum.

Passið upp á börnin ykkar, strákurinn minn varð fyrir því um kl 14:30 þegar hann var að labba göngustíginn fyrir ofan Eyjahraunið, rétt hjá Hafdísi dagmömmu, að það kom maður út úr bílnum sínum og þreif í hann og sagðist ætla að fara með hann heim til sín í Reykjavík. En minn maður brást hárrétt við og sparkaði í hann og náði að losa sig, þetta var tilkynnt til lögreglunnar hann gat lýst manninum en ekki bílnum.

Í athugasemdum við færsluna kemur fram að um þrjú tilvik er að ræða seinustu daga og ekur viðkomandi einstaklingur um á litlum gráum bíl.

Í athugasemdum kemur einnig fram að íbúar vilja myndavélar við innkeyrsluna inn í bæinn en slíkar myndavélar myndu nýtast vel þegar upp koma mál sem þessi.

Hvetjum við foreldra til að taka umræðu um þessi mál við börnin sín og hvernig eigi að bregðast við. Einnig viljum við hvetja alla íbúa til að vera á varðbergi og láta lögreglu vita ef þeir verða varir við eitthvað athugavert.