Yfirburðasigur Þórsara í fyrsta æfingaleik liðsins

MaciejBaginski01Þórsarar mættu Fjölni í gærkvöldi í æfingaleik í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn. Það sást frá fyrstu mínútu í hvað stefndi og sáu Fjölnismenn aldrei til sólar í þessum leik.

Þórsarar byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru fljótlega komnir með þægilegt forskot sem þeir náðu að halda út allan leikinn. Leikurinn endaði 82-54 fyrir Þórsurum og litu heimamenn gríðarlega vel út, flott flæði í sóknarleik og varnarleikurinn spilaður með miklum aga og vel framkvæmdur.

Stigaskorið dreifðist mjög vel í þessum leik og var virkilega gaman að sjá hversu stór hópurinn var og hversu vel álaginu var dreift í þessum leik. En það hefur verið einn af veikleikum liðsins undanfarin ár, hversu þunnur hópurinn hefur verið en er ljóst að það verður ekki vesen í ár.

Atkvæðamestur var Maciek Baginski með 21 stig sem spilaði sinn fyrsta leik sem Þórsari í kvöld en hann er nýkominn frá Njarðvík. Tobin Carberry skoraði 14, Halldór Garðar Hermannsson 10, Emil Karel Einarsson 8, Grétar Ingi Erlendsson 7, Magnús Breki Þórðarson 7, Davíð Arnar Ágústsson 6, Ragnar Örn Bragason 5, Þorsteinn Már Ragnarsson 2 og Benjamín Þorri Benjamínsson 2.

Næstu leikir liðsins verða núna um helgina en Icelandic Glacial mótið verður haldið dagana 9.-11. september. Strákarnir byrja á móti Stjörnunni á föstudaginn klukkan 20:00. Svo taka þeir á móti Skallagrím klukkan 17:00 á laugardaginn og ljúka mótinu á sunnudaginn með leik gegn Haukum klukkan 17:00.

Hvetjum alla til að mæta og hvetja strákana á mótinu.

Áfram Þór!
AÖS