Lögreglu vantar frekari upplýsingar um manninn og bílinn

thorl_skuggamynd01Lögreglan hefur ekki fundið manninn sem réðst á níu ára gamlan strák í Þorlákshöfn í gær og hótaði að fara með hann í kjallaraíbúð sína í Reykjavík.

Í samtali við DV.is segir Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, að ungi strákurinn hafi gefið góða lýsingu á manninum. Lögreglan hefur þó engar lýsingar af bílnum og eru því alveg strand með málið eins og er.

„Hann segir að maðurinn hafi verið 30 til 40 ára gamall og um það bil 180 cm. á hæð. Þybbinn, með snöggklippt ljósbrúnt hár, bláeygður og með skegghýjung. Hann var svartklæddur. Í svartri peysu með áberandi stórum appelsínugulum stöfum þar sem stóð ASA. Maðurinn var jafnframt klæddur í íþróttabuxur og í rauða skó.“ Segir Þorgrímur í samtali við DV.is í dag.

Þorgrímur segir að drengurinn hafi brugðist hárrétt við og segir þetta geta gerst allstaðar. Hann segir ennfremur nauðsynlegt að foreldrar ræði svona hluti við börnin sín og biðji þau um að gefa sig ekki að ókunnugu fólki. „Þetta er tilefni til að vara við og kenna börnunum hvernig á að bregðast við þessum aðstæðum.“

Lögreglan á Suðurlandi biður fólk sem telur sig búa yfir upplýsingum um málið að koma þeim til skila á sudurland@logreglan.is.