Rætt um uppgræðslu hjá Þorláksskóga

landgraedsla-grodursetning-treAð undanförnu hefur verið rætt um uppgræðslu landsvæðis sem gengur undir nafninu Þorláksskógar og er í nágrenni Þorlákshafnar eins og nafnið bendir til. Í því sambandi hefur verið horft til samvinnu Skógræktarinnar, Landgræðslunnar, sveitarfélagsins Ölfuss og Skógræktarfélags Íslands. Árni Bragason, landgræðslustjóri og Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri hafa átt viðræður um málið og eru þeir sammála að taka höndum saman og vinna að framgangi Þorláksskóga að því tilskyldu að fjármagn sé til reiðu. Þegar samstarfsamningur um Hekluskóga var undirritaður fyrir skömmu nefndiSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra umrætt landsvæði sem dæmi um næsta stórverkefni á sviði landgræðslu og skógræktar. Þá má nefna að Árni Bragason gerði uppgræðslu á svæðinu að umtalsefni á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands.

Hreinn Óskarsson, Skógræktinni, og Garðar Þorfinnsson, Landgræðslunni, rituðu samantekt um Þorláksskóga árið 2005 en þar kemur fram að landgræðslustarf í nágrenni Þorlákshafnar eigi sér langa og merkilega sögu. Uppgræðsla hófst vegna þess að sandfok ógnaði byggð og útgerð var vart hugsanleg nema tækist að stöðva sandfokið – og það tókst. Uppgræðsla í þeim mæli sem nefnd var í samantekt Hreins og Garðars varð ekki að veruleika vegna hrunsins.

Á dögunum var haldinn fundur með starfsmönnum sveitarfélagsins Ölfuss og Landgræðslunnar. Á fundinum voru þátttakendur voru sammála um að íbúum Þorlákshafnar yrðu sköpuð betri búsetuskilyrði ef Þorláksskógar yrðu að veruleika. Starfsmenn sveitarfélagsins bentu á að hugmyndir heimamanna um framtíð sveitarfélagsins fælust í „grænum“ áherslum og féllu Þorláksskógar vel að þeirri hugmyndafræði.

Síðustu áratugi hefur áhersla verið lögð á að stækka sandvarnarbeltið næst byggðinni til að koma í veg fyrir að sandfok valdi íbúum Þorlákshafnar óþægindum og búsifjum. Sáning melgresis og lúpínu hefur löngum verið veigamesti þátturinn í landgræðslustarfinu á þessu svæði en skógur er eina varanlega leiðin til að stoppa sandfokið.

Í frumdrögum að framkvæmdaáætlun fyrir Þorláksskóga var á sínum tíma gert ráð fyrir að rækta landbótaskóga í landi Sveitarfélagsins Ölfuss. Þar kom líka fram að hluti skógræktarsvæðisins næst bænum yrði gerður að almenningsgarði.

Skógar sem ræktaðir eru á rýru landi bæta lífsgæði á margvíslegan hátt. Höfundar samantektarinnar nefna að skógar bæta veðurfar bæði í sjálfum skógunum og í næsta nágrenni við þá, sandfok hættir og varanleg jarðvegsvernd fæst. Ef farið verður í þetta verkefni munu vatnsgæði aukast og lífsbreytileiki eykst. Ef þetta verkefni verður að veruleika munu Þorláksskógar bæta næringarástand jarðvegs, binda kolefni og sía loftmengun. Tré binda koltvísýring og ræktun nýrra skóga er ein besta leiðin til að uppfylla alþjóðasamninga sem Íslendingar eru aðilar að. Þá mun útivistargildi svæðisins margfaldast og þar með verðmæti þess.

Ótrúlegur árangur
Eitt fyrsta Landgræðsluskógaverkefni Landgræðslu ríkisins, Skógræktarinnar og Skógræktarfélags Íslands er austan vegar vegar skammt frá Þorlákshöfn, en þar hófst gróðursetning árið 1990. Davíð Halldórsson, umhverfisstjóri Ölfuss, sagði að mikið starf verið unnið í skógrækt á svæðinu. Fyrstu 10 árin hafi verið plantað um 120 þúsund plöntum en frá árinu 2000 hafi verið gróðursettar um 80 þúsund plöntur. Þá má minnast þess að árið 1994 gerðu Skógræktarfélag Íslands, Landgræðsla ríkisins og Ölfushreppur með sér samning til 50 ára um ræktun skóga á örfoka eða lítt grónu landi á söndunum norðan Þorlákshafnar. Skógræktin er þarna með nokkra tilraunareiti og um árabil hafa einstaklingar ræktað upp skóg nyrst á sandinum við mjög erfiðar aðstæður. „Alls hefur verið plantað á um 10 hektara svæði nálægt byggðinni sem síðar mun nýtast sem útivistarsvæði. Fyrirhugað er að planta í enn stærra svæði því nægilegt er landsvæðið. Árangurinn sem náðst hefur er alveg ótrúlegur,“ sagði umhverfisstjóri Ölfuss.

Plöntum líður best í faðmi lúpínunnar
Upphaflega var plantað með venjulegum plöntustaf en Davíð sagði að það hefði sýnt sig að þær plöntur sem þannig voru settar niður ættu mjög erfitt uppdráttar. Aðeins lifðu 15¬% fyrstu árin, sandblásturinn drap stóran hluta og frostlyfting hefur dregið úr vexti og viðgangi planta. Hrossaskítur skiptir öllu máli við þessa gróðursetningu, segir Davíð.

Alaskavíðirinn, sem er fljótsprottnastur, er orðinn um 6 til 8 metrar og hæstu birkiplönturnar ná fjögurra metra hæð. Davíð segir að að birkið hafi staðið sig best. “Birkið er ótrúlega harðgert en alltaf kelur eitthvað af víðinum. Reynt hefur verið að bera áburð á svæðið sem er stórt og því hefur það reynst tímafrekt og erfitt. Þá er það lúpínan sem kemur til bjargar en búið er að sá miklu af lúpínu í nágrenni Þorlákshafnar. Þar sem lúpínu er að finna virðist plöntunum líða best. Lúpínunni hefur verið plantað vítt og breitt um svæðið en einnig hefur hún sáð sér sjálf“, sagði Davíð Halldórsson, umhverfisstjóri Ölfuss.

Frétt fengin af síðu Landgræðslu ríkisins