Rafrænar samgöngur

Billi MaggÍ nútímasamfélagi skipar internetið stóran sess. Við stundum almenn viðskipti í auknum mæli í gegnum netið, sækjum þar menntun og öll fyrirtæki í landinu stóla á netið í rekstri sínum að einhverju leyti. Öflugt og stöðugt netsamband, um allt land, skiptir því gríðarlega miklu máli en uppbygging dreifikerfis fyrir netið á landsbyggðinni hefur setið á hakanum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt sitt af mörkum til þess að snúa þessari þróun við. Landsátakið ,,Ísland-ljóstengt” felur í sér uppbyggingu á ljósleiðarakerfum í dreifbýli og er markmiðið að 99,9% þjóðarinnar eigi þess kost að tengjast háhraða nettengingu árið 2020. Eru þetta um 4000 tengingar og verður um 900 tengingum lokið á þessu ári. Er því um að ræða eina mestu innviðabyltingu fjarskipta í landinu.

Í fjárlögum fyrir árið 2016 voru 500 m.kr. veittar í fjarskiptasjóð til þessa verkefnis og hafa 14 sveitarfélög nú þegar hlotið úthlutun úr sjóðnum.

Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir áframhaldandi uppbyggingu á þessu sviði, enda er þetta hreint og beint lífskjaramál og mikilvægur þáttur í styrkingu fjölbreytts atvinnulífs á landsbyggðinni.

Brynjólfur Magnússon
-höfundur skipar 8.sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi