Ungur nemur, gamall temur

slaturgerd01Fimmudaginn 17. október var nemendum 9. bekkjar í heimilisfræðivali í Grunnskólanum í Þorlákshöfn boðið að koma á Níuna (Egilsbraut 9) og gera slátur með starfsmönnum, eldri borgurum í dagdvöl og þeim sem nýta sér þjónustu mötuneytisins.

Nemendur þáðu boðið með þökkum og skunduðu á fund eldri borgara og starfsfólks Níunnar ásamt Berglindi Ósk Haraldsdóttur stuðningsfulltrúa. Sumir þeirra voru vanir sláturgerð og kunnu til verka en aðrir aldeilis óvanir að skera mör, hakka lifur og nýru, sníða vambir og sauma, hræra í blóði og þela upp en allri fundu sér verk að vinna.

Krakkarnir komu á Níuna snemma morguns og voru fram að hádegi. Það var nóg að gera enda tekin 13 slátur sem verða á boðstólnum mánaðarlega yfir vetrarmánuðina.

Öllum 9. bekkingum, ásamt Önnu Júlíusdóttur og Láru Hrund Bjargardóttur kennurum, var boðið að smakka herlegheitin, auk allra sem komu að sláturgerðinni.

Eftir því sem best verður komist þótti öllum þessi samvera skemmtileg og gefandi. „Þetta er komið til að vera“ svo vitnað sé í Sigrúnu Theódórsdóttur forstöðumann Níunnar og Ólínu Þorleifsdóttur aðstoðarskólastjóra.

Frétt og mynd af vef Grunnskólans í Þorlákshöfn