Guðmundur Karl í FH: „Tel þetta skref fram á við á mínum ferli“

gummikalli_fhÞorlákshafnarbúinn Guðmundur Karl Guðmundsson gekk í dag til liðs við Íslandsmeistara FH í fótbolta. Guðmundur hefur leikið allan sinn meistaraflokksferil með Fjölni eða 170 leiki í deild og bikar og skoraði þar 30 mörk. Hann var fyrirliði liðsins á nýafstöðnu tímabili þar sem Fjölnir endaði í 4. sæti sem er besti árangur liðsins frá upphafi.

„Það er frábært að vera kominn yfir í FH og mjög spennandi tímar framundan. Jafnframt er mjög erfitt að fara frá Fjölni þar sem ég hef verið mjög lengi. Sennilega ein af erfiðari ákvörðunum sem ég hef þurft að taka í gegnum tíðina,“ segir Guðmundur Karl í samtali við Hafnarfréttir um félagaskiptin í FH.

„Ég er spenntur fyrir komandi verkefnum með FH og tel þetta vera skref fram á við á mínum ferli sem knattspyrnumaður.“

Samningur Guðmundar hjá Fjölni var búinn og voru nokkur lið sem vildu fá hann í sínar raðir. „Það voru nokkur lið sem voru búin að hafa samband við mig og einnig vildi Fjölnir halda mér áfram en um leið og FH kom inn í myndina þá fannst mér það um leið mest spennandi kosturinn. FH býr yfir frábæru þjálfarateymi, frábærum leikmönnum og mjög flottri aðstöðu,“ segir Guðmundur Karl að lokum.