Jólastund Tóna og trix á þriðjudaginn

Hin árlega Jólastund Tóna og Trix verður haldin þriðjudagskvöldið 13. desember kl. 20.00 í Ráðhúsi Ölfuss.

Þar munu Tónar og Trix, tónlistarhópur eldri borgara í Ölfusi, syngja sín uppáhalds jólalög ásamt því að frumflytja glænýtt jólalag sem samið er af hirðpíanóleikara þeirra, Tómasi Jónssyni, og góð vinkona hópsins og Þorlákshafnarbúinn Halla Kjartansdóttir samdi textann.

Venjan er að Tónar og Trix fái til sín góðan gest á Jólastundina og að þessu sinni er það hin frábæra tónlistarkona Unnur Birna Björnsdóttir sem mun láta ljós sitt skína.

Að vanda mun verða boðið upp á heitt súkkulaði í hléi. Aðgangseyrir er 2.000 kr. og frítt fyrir börn 16 ára og yngri. Enginn posi á staðnum.