Samþykkt að breyta „Dugguhúsinu“ í gistihús

Bæjarstjórn Ölfuss samþykkti á síðasta fundi sínum að breyta húsnæðinu að Hafnarskeiði 7 í gistihús. Lóðin er á A3 svæði í aðalskipulagi sem er umboðs- og heildsala, skrifstofur, léttur iðnaður og ýmiskonar þjónusta.

Grímur Víkingur Þórarinsson á umrætt húsnæði sem oftar en ekki er kennt við Dugguna en fyrirspurn barst sveitarfélaginu um að breyta húsnæðinu í gistiheimili.  „Sett verði inn nokkur herbergi þar sem væri svefnaðstaða með eldhúshorni og snyrtingu. Þar sem útleiga verður á hverju herbergi til stutts tíma í senn, er ekki gert ráð fyrir þvottahúsi og geymslu með rýmunum,“ segir í fyrirspurninni sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar.

„Breytt notkun fellur undir skilgreiningu um ýmiskonar þjónustu í greinagerð með aðalskipulagi og er því samþykkt samhljóða,“ segir í bókun bæjarstjórnar Ölfuss.