Olís búðin og VÍS loka: Einar þakklátur fyrir tryggðina

Olís búðin og þjónustuskrifstofa VÍS munu hætta starfsemi sinni í Þorlákshöfn á næstunni. Þetta staðfestir Einar Gíslason útibússtjóri fyrirtækjanna í Þorlákshöfn í samtali við Hafnarfréttir.

„Olís hefur þó uppi áform um að halda áfram með OB bensínstöðina ásamt því að þjónusta bæði útgerð og fyrirtæki í Þorlákshöfn með einhverjum lager og einhverskonar viðveru því tengt,“ segir Einar en tekur fram að endanleg útfærsla á þeim þætti hefur ekki ennþá verið mótuð.

Í rúma þrjá áratugi hefur Einar stýrt versluninni í Þorlákshöfn. „Það eru orðin liðlega 31 ár síðan ég tók við umboði Olís í Þorlákshöfn og fór að versla undir þeirra merkjum. Búinn að vera bæði gefandi og skemmtilegur tími. Fyrstu árin var verslað í litlum skúr á hafnarsvæðinu en með vaxandi viðskiptum eins og gerðist á þeim árum fluttist starfsemin í stærri verslun að Óseyrarbraut 6.“

„Auðvitað hefur útgerðin og fiskvinnslan verið megin burðarstoðin í rekstri verslunarinnar og þeirri þjónustu er hér hefur verið hægt að veita í gegnum árin en eins og flestum er kunnugt hefur útvegurinn dregið mjög saman á liðnum árum,“ segir Einar.

Einar segir að fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar hafi jafnan sýnt mikla viðskiptatryggð við verslunina og hafa meðvitað metið þjónustuna samfélaginu dýrmæta og stuðlað af heilindum að viðgangi hennar. „Öllum þeim ber ég þakklæti í huga og að ógleymdu starfsfólkinu mínu öllu, trygga og góða sem staðið hefur vaktina með mér bæði fyrr og nú.“