Þór fær Njarðvík í heimsókn: „Vonumst til þess að hafa alla klára í kvöld“

Fyrsti heimaleikur Þórsara í Domino’s deildinni á þessu tímabili fer fram í kvöld kl. 19:15 en þá mæta Njarðvíkingar í heimsókn í Icelandic Glacial höllina.

Þórsarar töpuðu með einu stigi eftir hörkuspennandi framlengdan leik gegn Grindavík í fyrsta leik síðastliðinn sunnudag en sá leikur átti að fara fram á föstudeginum en var frestað vegna matareitrunar hjá leikmönnum Þórs. Einar Árni þjálfari Þórs var mjög ósáttur með aðgerð mótanefndar KKÍ að láta spila þann leik strax á sunnudaginn þar sem liðið var að glíma við alvarleg veikindi og leikjaálag þessarar viku varð fyrir vikið mjög mikið en Þór mætir  Tindastól í bikarnum á sunnudaginn.

„Staðan fer batnandi. Við vonumst til þess að hafa alla klára í kvöld,“ segir Einar Árni aðspurður í stöðuna á leikmönnum Þórs fyrir leikinn gegn Njarðvík í kvöld.

Snorri Hrafnkelsson og Ólafur Helgi Jónsson láu í veikindum alla síðustu viku en þeir snéru sig báðir á ökkla í leiknum á sunnudaginn. „Snorri og Ólafur Helgi hafa ekki verið í „contact“ í vikunni eftir ökklasnúninga en það lítur ágætlega út með þá svona fyrirfram allavega,“ segir Einar.

Bæði lið eru að leita að sínum fyrsta sigri og má því fastlega gera ráð fyrir hörku leik í Þorlákshöfn í kvöld.