Þorlákshöfn nýr viðkomustaður skemmtiferðaskipa

Tvö skemmtiferðaskip hafa boðað komu sína til Þorlákshafnar á næstu árum. Það fyrra heitir Hebridean Sky og kemur það mánudaginn 16. júlí 2018 kl. 13:00 og hið síðara heitir MV Scenic Eclipse og kemur á hádegi 14. ágúst 2019.

Hebridean Sky er með 59 rúmgóðar svítur og rúmar allt að 112 gesti. Miklar endurbætur voru gerðar á skipinu vorið 2016 og er skipið því vel útbúið. Áður en skipið kemur til Þorlákshafnar mun það koma við á Hornafirði og fer svo áfram á Arnarstapa og til Reykjavíkur.

MV Scenic Eclipse er glæný 6-stjörnu lúxus skemmtiferðasnekkja sem mun fyrst hefja siglingar 31. ágúst 2018, þegar skipið mun sigla frá Aþenu til Feneyja. Skipið tekur rúmlega 200 gesti en allt er til alls í þessu skipi, þar á meðal þyrla og þyrlupallur. Um er að ræða algjöran lúxus en eftir snögga athugun Hafnarfrétta kostar frá 2 milljónum króna að sigla frá Bergen í Noregi til Íslands en inni í því er sigling hringinn í kringum Ísland þar sem stoppað er í 9 höfnum og þar á meðal Þorlákshöfn.

Að sögn Hjartar Jónssonar, hafnarstjóra, hefur verið mikil vinna verið lögð í að fá skemmtiferðaskip til Þorlákshafnar og bindur hann vonir við að þessi grein eigi eftir að vaxa enn frekar á næstu árum.

„Það að fá skemmtiferðaskip til Þorlákshafnar hefur verið ákveðið áherslu verkefni hjá höfninni og var inngangan í Cruise Iceland árið 2014 framfararskref hvað það verkefni varðar. Einnig skipta máli þær miklu endurbætur sem hafa verið gerðar á höfninni en í dag geta meðalstór og jafnvel stór skemmtiferðaskip lagst að bryggju í Þorlákshöfn. Með því að leggjast að í Þorlákshöfn verður hægt að bjóða upp á áfangastaði eins og suðurströndina til Skóga og Víkur, auk þess sem stutt er í vinsælustu viðkomustaði á Suður- og Suðvesturlandi, hinn svonefnda Gullna hring, Suðurnesin og Bláa lónið. Það er heldur ekki hægt að horfa framhjá náttúrunni í og umhverfis Þorlákshöfn ásamt afþreyingu og þjónustu sem í boði er og verður þar auk áhugaverðra viðkomustaða í sveitarfélaginu, s.s. Selvogi, Raufarhólshelli, Hellisheiðarvirkjun, Reykjadal og Fákaseli“ sagði Hjörtur í samtali við Hafnarfréttir.