Bæjarstjórnarmál

Ármann Einarsson

Það hefur að mörgu leyti verið áhugavert að sitja í bæjarstjórn síðastliðið kjörtímabil. Samstarf og samvinna hefur verið með ágætum, það var ekki ágreiningur um stóru málin sem eru nokkur. Endurbætur á leikskólanum, stækkun á íþróttahúsinu fyrir fimleikaaðstöðu og endurbætur á höfninni sem hefur verið eitt af stóru málunum á tímabilinu og þá sér í lagi vegna tilkomu Mykines á milli Þorlákshafnar og Rotterdam sem hefur gjörbreytt því landslagi sem er við höfnina. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með Smyril-line að ná 30% hlutdeild í innflutningi á bílum á einu ári. Þetta er hluti þeirra góðu mála sem gaman hefur verið að vinna að.

Ruslaútboð

Það er vissulega margt sem vel hefur tekist og gaman hefur verið að taka þátt í, en það er því miður ekki allt eins gott. Má þar til að mynda nefna sorphirðumálin. Í byrjun kjörtímabilsins var sveitarfélagið í erfiðleikum vegna útboðsmála á sorphirðunni. Þar áttust við Gámaþjónustan og íslenska gámafélagið og sveitarfélagið einhvern veginn þar á milli og neitaði að afhenda útboðsgögn þrátt fyrir að úrskurðarnefnd upplýsingamála hefði ákveðið annað. Á þessum tímapunkti hefði verið eðlilegast fyrir sveitarfélagið að afhenda gögnin. En þá hófst mjög einkennileg atburðarrás. Sveitarfélagið fór í mál við Íslenska-gámafélagið til að þurfa ekki að afhenda gögnin sem svo tapaðist og Gámaþjónustan borgaði fyrir. Mjög sérstakt allt saman.

Kaup og sala á Rásarhúsinu

Kaupin á húsinu voru mistök en salan var öllu verri. Ég sá fljótlega að það voru mistök að minni hálfu að samþykkja þessi kaup. Að kaupa hús og hafa ekki hugmynd í hvað ætti að nota það, né hversu mikið það myndi kosta að gera upp er ekki góð ráðstöfun. Í u.þ.b. eitt ár var sveitarfélagið að vandræðast með þetta hús. Sveitarfélagið var búið að leggja í kostnað við húsið og lág sá kostnaður ekki fyrir þegar fyrsta tilboðið kom. Á þessum tíma var fasteignamarkaðurinn að gjörbreytast, hús fóru að seljast og við blasti annar veruleiki.

Það kemur svo tilboð í húsið 1. febrúar 2017 frá óstofnuðu félagi. Tilboðið hljóðaði uppá 30 milljónir og sveitarfélagið átti að gera við húsið fyrir ca. 15 milljónir, þetta tilboð var í rauninni ákveðinn dónaskapur. Þann 9. febrúar 2017 samþykkir bæjarráð að fela formanni bæjarráðs og forseta bæjarstjórnar að ræða við tilboðsgjafa. Út úr þessum viðræðum kom mjög sérstakur samningur. Þetta var samningur sem sveitarfélagið bauð hinu óstofnaða félagi, sem síðan fékk nafnið SF 2014 EHF. Húsið er selt á 33 milljónir til 5 ára, með 25 ára niðurgreiðslufrelsi og engin afborgun fyrstu 6 mánuðina, lán sem er bara ákveðin tegund af kúluláni veitt af sveitarfélaginu.

Þessi sala á Rásarhúsinu var ekki í lagi. Það var auðvitað mjög skrítið að sjá sveitarfélagið semja við gamla bankamenn, og veita þeim kúlulán. Í þessu máli var aldrei verið að fara vel með skattfé bæjarins. Eðlilegast hefði verið að setja húsið á almennt söluferli hjá fasteignasölu, þannig væri málið hafið yfir gagnrýni. En mönnum veittist ekki sú gæfa en við getum vonað að fólk læri af þessu ferli og vandi sig betur í framtíðinni.

Hækkun launa

Ráðinn var nýr hafnarstjóri á sínum tíma, samið var við hann um kaup og kjör en af einhverjum ástæðum voru laun hans hækkuð um 30% varla ári eftir ráðningu. Ég tek það fram að ekkert er við hann að sakast í því en að meirihlutinn hafi samþykkt þetta er í besta falli svolítið sérstakt. Ekki gott fordæmi sem menn settu og eftir sátu aðrir forstöðumenn með sárt ennið og sumir ósáttir.

Framtíðin

Það er ýmislegt sem kemur til með að gerast á næsta kjörtímabili. Eitt þeirra mála sem líklega verður eitt af stóru málunum er stækkun á dvalarheimili aldraða 9-unnar. Verðugt verkefni sem skiptir marga máli. Það verða svo væntanlega fleiri mál sem koma upp, smámál sem verða stórmál, og einhverjir óvæntir vinklar sem þörf verður á að bregðast við.
Samstarfið hefur gengið að miklu leyti vel en eins og sést eru það alltaf einhver mál sem standa útaf, þetta kjörtímabil var engin undantekning. Það er gott að vinna saman en við verðum að gæta okkar á því að verða ekki værukær.

Nú fer að líða að næstu sveitastjórnarkosningum og greinilega eru miklar sviptingar í gangi. Meirihluti B-listans sem hefur sífellt reynt að sverja af sér öll tengsl við framsóknarflokkinn láta nú verða að því og stofna nýtt framboð, þau hafa væntanlega litið svo á að best væri að skipta um föt fyrir næstu kosningar. Ekki ætla ég að gera lítið úr því, þetta er allt gott fólk sem vill það besta fyrir bæjarfélagið, það er þó alltaf best að koma til dyranna eins og maður er klæddur, að skipta um flokksnafn breytir ekki fyrri verkum.

Við hjá D-listanum lítum björtum augum fram á veginn. Í þessum töluðu orðum er verið að vinna í því að setja saman lista og síðan verður farið í málefnavinnu sem öllum verður frjálst að taka þátt í. Það er margt jákvætt sem er í gangi í sveitarfélaginu og miklir möguleikar hérna í Ölfusinu. Við viljum vinna að hagsmunum sveitarfélagsins með ykkur öllum og erum við hjá D-listanum meira en tilbúin til að leggja hönd á plóg.

Ármann Einarsson
Oddviti D-listans í Ölfusi