Kveðja frá Einari Árna þjálfara meistaraflokks Þórs

Það var sannarlega gæfuspor í mínu lífi að taka þá ákvörðun að koma í Þorlákshöfn og þjálfa Þórsliðið.  Ég þekkti hluta leikmannahópsins vel fyrir eftir að hafa þjálfað þá í yngri landsliðunum (Baldur Þór, Þorsteinn Már, Emil Karel, Halldór Garðar), og ég þekkti líka hluta af fólkinu í kringum starfið vel frá störfum mínum hjá KKÍ.  Starfið í Þorlákshöfn hefur verið að eflast mikið síðustu árin og framtíðin er sannarlega björt hjá félaginu.  Þessi þrjú ár hafa verið frábær, þó þessi síðasti vetur hafi verið okkur erfiður með mikil veikindi og meiðsli að hrjá leikmannahópinn en andinn hefur verið frábær.

Þegar ég horfi til baka standa tveir mjög jákvæðir punktar upp úr.  Annars vegar sú staðreynd að undir stjórn okkar Baldurs hafa sjö ungir heimastrákar leikið sína fyrstu meistaraflokksleiki á þessum þremur árum og þar fara framtíðarleikmenn félagsins.  Samhliða hefur verið ánægjulegt að sjá aðeins eldri drengi vaxa og ber þá helst að nefna Davíð Arnar og Halldór Garðar sem eru orðnir lykilmenn.  Davíð var ekki farinn að spila neitt að ráði þegar við tókum við en er í dag í stóru hlutverki og hefur leyst það frábærlega. Þór á sterkan kjarna heimastráka og það er grunnurinn að áframhaldandi góðu starfi í félaginu að halda vel á þeim kjarna. Síðari punkturinn sem ég verð að nefna er í raun máttur samfélagsins.  Bæjarbúar og brottfluttir sýndu mátt sinn þegar við fórum í Bikarúrslitaleikina í Höllinni bæði 2016 og 2017.  Það var magnað að vera partur af þeirri liðsheild og þrátt fyrir að silfrið hafi verið niðurstaðan í báðum tilvikum þá var maður afar stoltur Þórsari þessa daga.  Þessir bikarúrslitaleikir tryggðu okkur inn í leik meistara meistaranna gegn tvöföldum meisturum KR síðustu tvö haust og í báðum tilvikum lögðum við KR að velli og eru þetta fyrstu titlar meistaraflokksins, og þó þeir séu litlir þá eru þeir vonandi bara upphafið af einhverju meira í framtíð félagsins.

Eins og ég hef komið inn á áður var ákvörðunin að halda ekki áfram erfið, því mér hefur liðið afskaplega vel í Þorlákshöfn og ég á eftir að sakna drengjanna í liðinu mikið og fólksins í kringum starfið sem hefur tekið mér afar vel.  Ég hlakka til að fylgjast með Baldri Þór og drengjunum í framhaldinu og er mjög spenntur að sjá hvernig framvindan verður hjá ungu mönnunum sem hafa verið að banka á dyrnar í meistaraflokknum á síðustu tveimur árum. Framtíðin er þeirra.

Einar Árni Jóhannsson