Nýbúar í Ölfusi og Þorlákshöfn

Rakel Sveinsdóttir

Fyrir stuttu hitti ég nýbúa í dreifbýli Ölfuss, sem eins og mín fjölskylda, er alsæl með flutningana í sveitarfélagið. Þau viðurkenndu þó að hafa ekki verið undirbúin fyrir allt ,,barnaskutlið” sem flutningunum fylgdu. Þar eru þau að vísa í skólaakstur í dreifbýlinu er ekkert endilega að henta þörfum barnanna sem þangað eru að flytja. Þannig eru dæmi um að dreifbýlisbörn í Ölfusi þurfi að bíða í allt að 1,5 klukkustund í forstofu skólans í Hveragerði, áður en skólabíllinn kemur. Að sjálfsögðu þýðir þetta aðeins eitt: Púsluspil foreldra um hver getur sótt og hvenær hefst um hæl. Við þetta samtal rifjaðist upp fyrir mér, hversu vond tilfinning mér fannst það vera, fyrst eftir flutninga fjölskyldunnar í Árbæjarhverfið fyrir 4 árum, að vera stundum föst í umferð á Miklubraut í Reykjavík, með barn í frístund á Selfossi. Einkenni nýbúa er nefnilega oft það að baklandið er ekki lengur til staðar.

Í Þorlákshöfn hefur íbúafjölgunin einnig verið frábær síðustu árin. Sumir eru að snúa aftur á æskuslóðir, aðrir að koma sér burt frá húsnæðisvandanum í bænum. Gulrótin við þessa þróun er að fólk getur flutt hingað, greitt útsvarið hér en starfað áfram á höfuðborgarsvæðinu. Þetta snilldardæmi gengur þó ekki upp, nema hugsað sé fyrir sveigjanleika þjónustunnar alla leið. Til viðbótar við þjónustu skólabíla vil ég því nefna sveigjanleika leikskólans í Þorlákshöfn. Hann þarf að vera í takt við núgildandi umhverfi foreldra um 40 stunda vinnuviku, til viðbótar við mögulegan akstur til og frá vinnu. Hér er ég ekki að mæla á móti hugmyndum um styttingu vinnuvikunnar. Nei, þvert á móti vona ég að okkur takist að læra af öðrum þjóðum, hvernig við eigum að vinna minna samhliða því að stórauka framleiðni. Samfélagið er hins vegar ekki komið þangað enn og á meðan svo er, þarf þjónusta sveitarfélagsins við börn og foreldra að taka mið af núgildandi kerfi. Annars er hætta á að það sama gerist og gerðist þegar fæðingarorlofið var stytt og þak sett á tekjutengingu. Sú þróun bitnaði mest á konum.

,,Hamingjan býr hér” er yfirskrift íbúa í Þorlákshöfn og auðvelt er að yfirfæra það slagorð einnig yfir á lífið í dreifbýlinu. En við á D listanum horfum til framtíðar og nýrra tíma. Þess vegna verður eitt af áherslumálunum okkar, að huga enn betur að þörfum barna og fjölskyldufólks og verða þannig betur í stakk búin til að taka á móti þeim nýbúum sem hingað munu flytja næstu misseri sem og að veita núverandi íbúum betri þjónustu.

Rakel Sveinsdóttir
Frambjóðandi á 2.sæti D listans í Sveitarfélaginu Ölfusi