Eins og að borða fíl

Stjórnsýsla er eins og að borða fíl. Og hvernig borðar maður fíl? Jú, einn bita í einu. Stjórnsýsla er ekki kjörlendi fyrir tegundina fljóthuga fólk en eigi að síður afar þroskandi upplifun. Stjórnsýsla er fyrirbæri þar sem maður upplifir oft á tíðum að verið sé að fjalla um eitthvert mál í hundraðsta skipti vegna þess að að þannig er kerfið sett upp. Flest mál þurfa að fara í gegnum margar síur áður en þau öðlast eitthvert brautargengi. Fyrir utan lagabókstafinn og stjórnsýslulög öll þarf samtal, málamiðlanir, yfirvegun og gegnheila og trausta samvinnu.

Vegna þessa alls eru fjögur ár stuttur tími þegar horft er til baka og þau líða hratt – þó þau virki löng þegar hugsað er til framtíðar. Þess vegna gerist svo margt hjá sveitarstjórnum á seinni hluta kjörtímabils eða í blálok þess, það er hvorki tilviljun eða kosningatrikk.  Það tekur einfaldlega tíma að koma málum í farveg, forgangsraða o.s.frv. Það veit ég nú af reynslunni.

Fjölmörg góð mál og verkefni eru þegar í höfn eftir síðastliðin ár. Önnur eru komin vel áleiðis og svo eru spennandi verkefni í burðarliðnum sem fylgja þarf vel eftir svo af verði. Því þætti mér og mínu fólki í XO Ölfus endalaust verðmætt að fá frekara tækifæri til að vinna áfram fyrir sveitarfélagið okkar.

Og hver erum við sem skipum XO Ölfus? Sex af okkur á framboðslistanum sitjum í núverandi sveitarstjórn. Við erum alls konar fólk sem kynntist að mestu leyti á sl. fjórum árum vegna þess að við vorum kosin úr þremur ólíkum áttum til þess að fylla sveitarstjórn Ölfuss. Fljótlega afmáðust klassísk skil þess sem almennt er kallað meirihluti og minnihluti, við vorum einfaldlega kjörnir fulltrúar fyrir Ölfus. Með okkur á listanum er fleira allskonar fólk, s.s. frá eldra baklandi sem og brakandi nýliðar. Við eigum það öll sameiginlegt að aðhyllast þessa samtals- og samvinnusýn, sem mun t.d. skila sér í því, ef við fáum brautargengi, að bókahald sveitarfélagsins verður opnað og öll gögn funda gerð sýnileg. Saman skipum við öfluga heild ásamt núverandi bæjarstjóra sem er ekki bara ráðinn heldur brennur jafnmikið og við frambjóðendur fyrir málefnum og hag sveitarfélagsins.

Þannig borðar maður fíl, einn bita í einu og líka … það er besti parturinn … býður maður öðrum með sér.

Ágústa Ragnarsdóttir,
skipar 5. sæti XO Ölfuss