Bæjarmálin í Ölfusi: Okkar vonir vegna Lýsis

Gestur Þór Kristjánsson, forseti bæjarstjórnar

Ég bý sjálfur við það að vera í línu við ríkjandi vindátt frá hausaverksmiðju Lýsis í Unubakka og þeir hafa því verið ófáir sunnudagsmorgnarnir þar sem ég opna forstofuna og anda að mér lofti mettuðu hausalykt. Lyktin situr í húsum, fötum og bílum. Þið getið því rétt ímyndað ykkur hvað ég hef hlakkað til þess síðastliðin tvö ár, að nú fari Lýsi brátt að flytja starfsemina sína úr Unubakkanum og í nýja og glæsilega útbúna verksmiðju fyrir utan bæinn.

Það var því nokkuð dæmigert að eitt fyrsta verkefnið ný bæjarstjórn fékk í fangið eftir kosningar, var að senda inn umsögn til Heilbrigðiseftirlitsins um 12 mánaða framlengingu eftirlitsins á starfsleyfi Lýsi í Unubakka. Sú framlenging skýrist auðvitað af því að nýja húsnæðið er nokkuð langt frá því að vera klárt. Að hluta til töfðust framkvæmdir vegna veðurs í vetur, en eins eru þeir háðir því að framkvæmdir vegna heita/kalda vatnsins og rafmagns klárist eins fljótt og auðið er. Sem betur fer, kemur þó skýrt fram í útgefnu starfsleyfi að engin starfsemi verður leyfð í júlí og ágúst.

En okkur bæjarfulltrúunum fannst samt 12 mánuðir nokkuð langur tími og því óskuðum við eftir því að bæjarstjórn fengi nánari upplýsingar. Ég bað um að Lýsi myndi skila til okkar framkvæmdaráætlun, sem þeir og gerðu og við fengum á dögunum. Þar kemur fram að gangi framkvæmdaráætlanir eftir, ætti að vera hægt að loka verksmiðjunni í Unubakkanum í janúar/febrúar 2019. Á bæjarstjórnarfundi var því ákveðið að í umsögn okkar til Heilbrigðiseftirlitsins, myndum við leggja til að framlenging á starfsleyfinu yrðu 9 mánuðir frekar en 12 mánuðir. Heilbrigðiseftirlitið varð ekki við þeirri ósk okkar, en við ætlum samt að vera bjartsýn á að Lýsi flytji upp úr áramótum. Það er þá helst vegna þess að við vitum að allar tafir á nýja húsnæðinu, eru skiljanlega kostnaðarsamar fyrir fyrirtækið.

Að sjálfsögðu lagði bæjarstjórn áherslu á það í umsögn sinni, að eftirlitið héldi sig við lokunina í júlí og ágúst en við hvöttum einnig til þess að lokanir yrðu jafnvel oftar, t.d. þegar veður og vindátt gerir það að verkum að lyktamengun er mikil. Loks beindum við því til Heilbrigðiseftirlitsins að gefa ekki út fleiri starfsleyfi fyrir lyktmengandi starfsemi í Þorlákshöfn, nema fyrir liggi staðfesting á að umrædd starfsemi muni flytja. Þar bentum við á fyrirliggjandi skipulag bæjarstjórnar, sem þegar hefur úthlutað sérstöku svæði fyrir lyktmengandi starfsemi utan þéttbýlis.

Næsta haust þarf ég því enn á ný að gera ráð fyrir dögum þar sem ég bölva aftur lyktinni sem berst heim til mín. Ég get samt ekki horft fram hjá því að rétt fyrir utan bæinn er nú að rísa fullkomlega útbúin verksmiðja sem kostar hundruði milljónir króna að byggja. Í dag þarf því enginn að efast um að Lýsi er að flytja innan skamms og svo sannarlega standa vonir okkar í bæjarstjórn til þess, að það verði upp úr áramótum eins og þeir sjálfir miða við. Með flutningnum tekst okkur líka sem samfélag að tryggja tvennt: annars vegar að hér sé áfram unnið að uppbyggingu blómlegs atvinnulífs en hins vegar að slík starfsemi sé ávallt uppbyggð í sátt við íbúa og önnur fyrirtæki á svæðinu.

Gestur Þór Kristjánsson
Forseti bæjarstjórnar