Digiqole ad

Bæjarstjórn leggst eindregið gegn endurnýjun starfsleyfis Fiskmarks

 Bæjarstjórn leggst eindregið gegn endurnýjun starfsleyfis Fiskmarks

Bæjarstjórn Ölfus leggst eindregið gegn því að starfsleyfi hausaþurrkunarinnar Fiskmarks ehf. verði endurnýjað miðað við aðstæður fyrirtækisins í dag. Fyrir fund bæjarstjórnar sem haldinn var á þriðjudag lá beiðni um umsögn á endurnýjun starfsleyfis Fiskmarks ehf.

Vísar bæjarstjórnin til umsagnar sinnar frá árinu 2016 um starfleyfisskilyrði fiskþurrkunarinnar þar fram komu ítarlegar forsendur þess að sveitarfélagið lagðist gegn því að leyfið yrði veitt til fjögurra ára. Telur bæjarstjórn Ölfuss sömu rök eiga við í dag.

Þá segir jafnframt í tilgreindri umsögn frá 1. október 2016: „Ekki skal koma til álita að framlengja starfsleyfið að tveimur árum liðnum.“

„Bæjarstjórn bendir enn fremur á að fyrir liggja gögn frá HSL sem sýna að í um það bil 50 skipti hafa íbúar kvartað formlega undan lyktarmengun frá tilgreindri starfsemi. Ætla má að þar sé einungis um toppinn á óánægjuísjakanum að ræða. Slíkar kvartanir tekur sveitarfélagið alvarlega enda um hollustuhætti og búsetugæði að ræða.“ Segir í fundargerð bæjarstjórnar Ölfuss.

Fiskmark stendur til boða lóð á tilgreindum skipulagsreit á iðnaðarsvæðinu vestan við Þorlákshöfn. „Þekkt er að Lýsi ehf. mun flytja starfsemi sína þangað á næstu mánuðum og hefur það verið forsenda afstöðu sveitarstjórnar til áframhaldandi starfsemi þess fyrirtækis,“ segir í fundargerðinni.

„Einnig er vert að taka fram að sveitarfélaginu ber skylda að vernda hagsmuni íbúa og komi til þess að heilbrigðiseftirlitið endurnýji starfsleyfi Fiskmarks munu forsvarsmenn þess leita lagalega réttar með þá hagsmuni í huga.“