Digiqole ad

Bæjarstjórn hafnar áformum um urðunarstaði í Ölfusi

 Bæjarstjórn hafnar áformum um urðunarstaði í Ölfusi
Mynd: Guðmundur Karl/Sunnlenska

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss hefur hafnað áformum Sorpstöðvar Suðurlands um urðunarstaði á Nessandi og Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi. Frá þessu er greint í fundargerð bæjarstjórnar Ölfuss.

Árið 2009 var framkvæmt staðarval fyrir ákjósanlega urðunarstaði og þar voru Nessandur og Kirkjuferjuhjáleiga taldir ákjósanlegir. „Færa má rök fyrir því að þær forsendur sem fyrir lágu við staðarval árið 2009 séu brostnar enda hafa síðan þá risið upp vænleg áform um uppbyggingu matvælaiðnaðar á svæði Nessands, vatnstöku o.fl.“ segir í fundargerðinni.

Í gögnum Eflu frá 2009 var Nessandur talinn sérstaklega vænleg staðsetning þar sem íbúar og fyrirtæki á nálægu svæði voru þá talin mjög jákvæð gagnvart áformum um urðunarstað á svæðinu. „Á íbúafundi sem haldinn var í ágúst 2018 var fundargestum vel ljóst að svo er ekki sem þýðir að listun Nessands sem vænlegasta kost urðunarstaðsetningar á ekki við lengur samkvæmt þeirri aðferðarfræði sem stuðst var við árið 2009.“

„Í ljósi ofangreinds sem og þeirra hagsmuna sem liggja í mögulegum atvinnutækifærum íbúa og fyrirtækja á svæði Nessands ekki síst ímyndarlega er alfarið mælt á móti því að urðun fari fram á Nessandi.“

Þá segir í fundargerðinni að Sveitarfélagið Ölfuss hafi nú þegar sinnt þeirri samfélagslegu ábyrgð sinni að taka við úrgangi frá öðrum sveitarfélögum eins og urðun á Kirkjuferjuhjáleigu á sínum tíma. „Það er því vel við hæfi að gefa öðrum sveitarfélögum á Suðurlandi nú kost á því að velja staðsetningu innan sinna svæða svo samstarf Sorpstöðvar Suðurlands gangi eftir, eins og nú er til skoðunar.“

Fulltrúar O-listans greiddu atkvæði á móti þessari ákvörðun. „Við á O-listanum lítum hinsvegar á það sem samfélagslega ábyrgð okkar að taka þátt í að leita lausna í þessum málaflokki með hag íbúa Ölfuss að leiðarljósi“ segir í bókun þeirra en þar segir jafnframt:

„Á síðasta fundi bæjarstjórnar nr. 259 kom fram í niðurlagi bókunar fundarins varðandi sama mál og hér er fjallað um að bæjarstjórn legði áherslu á að samhliða rannsóknum tengdum Nessandi verði aðrir mögulegir urðunarstaðir skoðaðir. Ekkert nýtt hefur komið fram og/eða kynnt fyrir bæjarstjórn Ölfuss frá því að þetta var bókað og því er að okkar mati engar forsendur til þess að leggjast gegn því að viðkomandi staður sé áfram skoðaður sem valmöguleiki.“

„Rannsóknir á viðkomandi urðunarstað sem er skilgreindur sem slíkur á aðalskipulagi Ölfuss hafa ekki átt sér stað meðal annars m.t.t. hvaða óvirka úrgang mætti urða þar. Okkar afstaða er sú sama og fyrri bæjarstjórnar Ölfuss að ekki koma til greina að taka á móti neinu sorpi eða úrgangi sem hugsanlega getur valdið mengun.“