Að máta sig í mismunandi hlutverk – gagnrýni

Harpa Rún Kristjánsdóttir skrifar um leikritið Saumastofuna í uppsetningu Leikfélags Ölfuss.

Saumastofan eftir Kjartan Ragnarsson
Leikstjóri Guðfinna Gunnarsdóttir

Gengið er inn gegnum dökkleitt tjald, við okkur blasa saumavélarnar, straubrettin og sniðin sem mörgum eru í barnsminni, en koma þó yngri áhorfendum spánskt fyrir sjónir. Það er viðeigandi að láta áhorfendur stíga gegnum efni til að njóta þessa verks, því það er einmitt efnið, stykkin, sniðin og saumaskapurinn sem bindur persónur Saumastofunnar saman.

Tímalaus spegill?

Leikritið Saumastofan eftir Kjartan Ragnarsson er ekki nýtt af nálinni, heldur var það skrifað í tilefni kvennaársins 1975, fyrsta verk höfundar. Eins og segir í leikskrá naut það mjög mikilla vinsælda hjá Leikfélagi Reykjavíkur og það mátti greina nokkra nostalgíu í Versölum á þriðjudagskvöldið. Í hugum margra hafa Saumastofan, tónlistin og persónurnar sem þar birtast, yfir sér einhverskonar goðsagnablæ. Leikfélag Ölfuss þarf því að standast töluverðar væntingar margra.

Verkið er skrifað sem samtímalýsing á ákveðnu tímabili. Um er að ræða persónudrifið söguleikhús þar sem mismunandi einstaklingar standa fyrir ólíkar byggingareiningar heildarsögunnar. Í meðförum Guðfinnu Gunnarsdóttur og leikhópsins er ákveðið að halda í þann tíðaranda ritunartíma verksins. Ekki er leitast við að nútímavæða verkið eða færa það að samtímanum og er það vel, þar sem um er að ræða boðskap sem stenst tímans tönn, og með því að opna glugga inn í fortíðina verður samtímaspeglunin sterkari.

Að taka upp snið

Sviðsmynd verksins er sem fyrr segir raunsæ og trú sínum tíma, leikmyndahönnuður og sýningarstjóri er Ólöf Þóra Þorkelsdóttir en búningar og leikmunir koma frá leikhópnum. Auk hversdagslegra muna lokast bakveggur sviðsins með stækkaðri mynd af margskonar saumansiðum. Myndin er verk Ólafar Þóru og prýðir einnig leikskrána, sem hönnuð er af Hákoni Svavarssyni og Magnþóru Kristjánsdóttur, auk þess að bregða fyrir í anddyri Versala. Sniðablaðið verður raunar að býsna áhugaverðri myndlíkingu fyrir frásagnarform verksins. Þar ægir saman mismunandi sniðum af stykkjum sem eiga að verða að flíkum. Til þess að fá botn í það verður að fylgja línum hverrar og einnar, ná henni fram einni og stakri, á sama hátt og persónurnar stíga fram ein og ein í einu til að segja áhorfendum sögur sínar.

Sviðið er einnig til þess gert að undirstrika frásagnarmátann. Þegar persónurnar segja frá lífi sínu og hleypa þeim sem hlusta inn í kvikuna á sér stíga þær niður af hinu upphækkaða sviði og staðsetja sig þannig jafnfætis áhorfendunum. Það gerir frásögnina bæði einlægari og auðveldar samsömun. Virkni þessa mjóa fremra sviðs byggir mikið á góðri ljósahönnun. Hún er í höndum Benedikts Axelsonar og tekst mjög vel til. Áhorfendur á fremsta bekk sitja ansi nærri leikurunum þegar þeir stíga fram á þennan hátt, en engu að síður gengu skiptingar í myrkri mjög vel fyrir sig.

Tónlistin er mikilvægur hluti verksins og eitt af því sem margir aðdáendur þekkja hvað best. Þar ræður einfaldleikinn ríkjum þar sem oft er einungis byggt á röddum leikaranna með tveimur undantekningum þar sem Álfheiður Østerby leikur á klarinett. Þessi látlausa túlkun stingur nokkuð í stúf við slagara sem leiknir eru af bandi með þungum hljóðfæraslætti og ramma sýninguna inn í upphafi, miðju og endi. Söngur án undirleiks er mjög vel leystur, sem og þau atriði þar sem leikararnir hálf-fara með söngtextana frekar en að syngja, en gaman hefði verið að heyra fleiri lausnir eins og undirleik klarinettsins.

Tökum því fagnandi og hlökkum til

Saumastofan er persónudrifið verk og er þeim ætlað að koma á framfæri ákveðnum gildum. Þær verða því á köflum nokkuð fyrirsjáanlegar, gamla konan með reynsluna, ólétta ungmeyjan, homminn í bleiku skyrtunni o.s.frv. Í svona pólitísku verki eru persónur af þessu tagi nánast nauðsyn og því meiri áskorun fyrir leikara að nálgast þær á frjóan hátt. Þar koma áhorfendur ekki að tómum kofa hjá Leikfélagi Ölfuss. Verkið er vissulega borið uppi af konum en innkoma hins kynsins skapar skemmtilegt mótvægi. Ber þar sérstaklega að nefna Daníel Mána Óskarsson sem er svo heill og einlægur í hlutverki Himma að það var ómögulegt annað en að hrífast með. Sömuleiðis leynir kærastan hans, Lilla, á sér. Í upphafi virðist persóna hennar fremur flöt og óspennandi, en öðlast í meðförum Álfheiðar Østerby líf þrungið kímni og alvöru auk þess sem hún vekur með áhorfendum þá grátbroslegu samkennd sem persóna hennar á skilið.

Leikfélag Ölfuss nýtur krafta lánsleikonunnar Jónheiðar Ísleifsdóttur að þessu sinni, en af henni geislar leikgleðin að vanda. Henni tekst að gera heldur lítið hlutverk Diddu, sem alltaf skiptir um skoðun, að stóru og samleikur þeirra Róberts Karls Ingimundarsonar er stórskemmtilegur á köflum. Ásta Margrét Grétarsdóttir og Ingólfur Arnarsson kitla hláturtaugarnar í hlutverkum Ásu og Kalla sem bæði eru persónur sem sífellt eru að leika og verða enn meira marglaga fyrir vikið. Þykkur skrápur hinnar geðveiku Gunnu brotnar smám saman í túlkun Magnþóru Kristjánsdóttur sem er ekki síðri í hlutverki eiginmanns Möggu, sem leikin er af Erlu Dan Jónsdóttur en hin síðarnefnda nær áhorfendum af fullum krafti í sinni sorgarsögu. Þá er ónefnd Árný Leifsdóttir sem ljær hinni hlédrægu Siggu líf. Sigga er elsta persónan og færir áhorfendum marga óborganlega speki með sínu meðfædda lífsviðhorfi að hlakka alltaf til. Árný gerir þessari sveitakonu af gamla skólanum góð skil, en fallegasta sena verksins er í sögunni hennar Siggu, þegar sársauki þessarar hlédrægu konu brýst fram í einskonar upprunaöskri.

Flestar persónur leika fleira en eitt hlutverk og takast kvenleikarar gjarnan á við karlhlutverk í þeim skiptum. Þessi forngríska aðferð gefur sögunni aukið skemmtanagildi – og var það þó ekki af skornum skammti fyrir, en minnir okkur einnig á mikilvægi þess að setja sig í spor annarra og máta í mismunandi hlutverk. Saumastofan er bráðfyndin sýning og var auðheyrt á salnum að sú skoðun var almenn. Hún er líka beitt og á köflum grátbrosleg. Sögur persónanna snerta áhorfendur og í þeim er gjarnan broddur og gagnrýni sem á við enn í dag. Eftir stendur samstaðan og það er fallegt hvernig yngsta persónan, Lilla, klifar á henni þegar hún biður hinar konurnar að segja sögur sínar. Við verðum að þekkja hvert annað til að geta staðið saman og fagnað því hversu ólík við erum. Sögur kvennanna á saumastofunni eru nefnilega sögur okkar sjálfra og kvennanna í lífi okkar, sem okkur hættir til að gleyma. Það er það sem gerir það að verkum að sýningin á fullt erindi við okkur enn í dag. Ég þekkti ekki lögin úr Saumastofunni, en þau vöktu eitthvað innra með mér. Eitthvað sem olli því að í gærkvöldi lagðist ég á koddann sönglandi „Áfram stelpur.“ Verkið endar á tímamótum þar sem Lilla spyr Möggu hvort það sé örugg að allt verði nú eins og Magga svarar eitthvað í þá veru að líklega séu hlutirnir að breytast. Þeir eru það, en í anda Siggu gömlu legg ég til að við tökum því fagnandi, og hlökkum til.

Harpa Rún Kristjánsdóttir