Aukin flokkun í Ölfusi

Í byrjun apríl tók Kubbur ehf. við sorphirðu í Ölfusi og mun fyrirtækið einnig sjá um að þjónusta gámasvæðið.

Með þessari breytingu verður flokkun aukin og verður tekin upp sú nýbreytni að flokka málma líka og fara þeir ofan í grænu tunnuna með plastinu.

Sorphirðan verður með svipuðu móti og hefur verið en fyrsti sorphirðudagur Kubbs verður mánudaginn 8. apríl n.k og verður þá hirt almennt sorp og lífrænt. Vikuna á eftir mánudaginn 15. apríl n.k munu starfsmenn fyrirtækisins hirða blá- og græntunnur.

Hægt er að nálgast nýtt sorphirðudagatal á vefsíðu sveitarfélagsins.

En hvernig á þá að flokka?

Blá tunna: Bylgjupappír, sléttur pappír, blöð og fernur.

  • Bylgjupappi: Allur bylgjupappi, til dæmis pappakassar, pitsukassar og þvottaefniskassarBylgjupappi þekkist af bylgjum sem sjást ef brúnir hans eru skoðaðar. Það er í lagi að bylgjupappinn sé áprentaður, plasthúðaður og litsterkur.
  • Sléttur pappi: Það eru umbúðir utan af morgunkorni, eggjabakkar, eldhús- og salernishólkar og kexpakkar. 
    Mikilvægt er að fjarlægja allar matarleifar og plastumbúðir sem kunna að vera inni í umbúðunum.                                          
  • Blöð: Dagblöð, tímarit, allskonar auglýsingapésar, umslög, skrifstofupappír og svo framvegis. Það þarf ekki að hreinsa heftivír úr pappír.
  • Fernur er nauðsynlegt að skola til að forðast lyktamengun og brjóta svo allar umbúðir saman svo þær taki minna pláss.

Græn tunna: Litað plast, glært plast, stíft plast og málmar.

  • Litað plast: Litað og áprentað plast, t.d. utan af kók-kippum, brauði, sælgæti, salernispappír, eldhúspappír og svo innkaupapokar.
  • Glært plast: Allt plast sem er glært, t.d. innan úr morgunkornspökkum og utan af kexi. 
  • Stíft plast: Í þennan flokk mega fara plastbakkar undan matvælum, plast undan drykkjum t.d söfum. Dósir undan skyri, jógúrt, mysingi, sýrðum rjóma, mayonnaise, ís, sósum, ostum og svo lok og tappar.
  • Brúsar undan sjampói, hárnæringu, uppþvottalegi, hreinsiefnum o.fl.

Umbúðirnar þurfa að vera tómar. Áríðandi er að skola þær svo ekki komi ólykt. Æskilegt er að lok og tappar séu ekki á umbúðum en fylgi með í flokkunarpokanum. 

  • Málmar: Niðursuðudósir, lok, tappar, álpappír, álbox af sprittkertum og margir aðrir smáhlutir úr málmum fara í þennan flokk. Ekki þarf að fjarlægja bréfmiða af dósum, plasttappa eða plasthandföng. Málmur þarf samt að vera í meirihluta. 
  • Ganga skal tryggilega frá eggjárni sem sett er í grænu tunnuna svo það skaði engan við flokkun. Alla stærri málmhluti t.d. potta, pönnur, garðverkfæri, sláttuvélar o.fl. skal fara með á gámasvæðið.

Brúna ílátið: Lífrænn úrgangur – hent í maíspoka.

Í brúna ílátið fer allur lífrænn úrgangur sem fellur til á heimilum t.d. allar matarleifar, brauð og kökuafgangar, eggjaskurn, kaffikorgur, kaffisíur og tepokar, ávextir, grænmeti, kjöt- og fiskafgangar, afskorin blóm og plöntur. Athugið að súpur, sósur og soð má ekki setja með lífrænum úrgangi. ATHUGIÐ! SÚPUR, SÓSUR OG SOÐ MÁ EKKI SETJA MEÐ LÍFRÆNUM ÚRGANGi.

Nánari upplýsingar veitir Davíð Halldórsson, umhverfisstjóri Ölfuss, í síma 899-0011 eða david@olfus.is.