,,Allskonar ævintýri og hasar sem maður getur lent í“

Tónlistarkonuna Lay Low þekkja nær allir íslendingar enda hefur hún unnið sér góðan sess í íslensku tónlistarlífi frá því hún kom fram með fyrstu plötu sína árið 2006. Það vita hinsvegar ekki margir að hún er sveitungi okkar Ölfusinga, þar sem hún hefur búið síðan árið 2012.

Síðar í þessum mánuði mun hún spila í fyrsta sinn í Þorlákshöfn og segir hún heldur betur kominn tími á það eftir að hafa búið í túnfætinum í öll þessi ár. Tónleikarnir verða á Hendur í höfn 25. maí.

Við ákváðum að nýta þetta tilefni til þess að fá að skyggnast aðeins á bakvið tjöldin hjá tónlistarkonunni Lay Low, sem ber dags daglega nafnið Lovísa.

Lovísa hefur eins og áður sagði búið í Ölfusi frá árinu 2012 og býr þar ásamt konu sinni Agnesi Ernu og syni þeirra Fróða Stefáni sem er alveg að verða fjögurra ára. Okkur þótti forvitnilegt að vita hvernig það kom til að þær ákváðu að flytja úr höfuðborginni í sveitina.

,,Við fluttum fyrst hingað árið 2012 og leigðum húsnæði í eitt ár. Okkur líkaði svo vel eftir prufukeyrsluna að við ákváðum að selja kjallaraíbúðina okkar í miðbæ Reykjavíkur og flýja út í sveit. Fundum svo eitt hús sem okkur leyst á en það þurfti svolítið mikið að gera það upp. Ákváðum að taka þeirri áskorun og höfum búið hér síðan 2013. Miklar framkvæmdir og stúss en við vinnum í þessu hægt og rólega og höfum gaman að því.”

Hvað er það við Ölfusið sem heillar ykkur?

,,Kyrrð og ró fyrst og fremst. En svo er þetta svo fallegt svæði og okkur finnst mjög gott að búa í Ölfusinu, stutt á höfuðborgarsvæðið þegar þörf er á að fara þangað.”

Lay Low hefur gefið út 4 plötur frá árinu 2006 sem hún segir að séu allar frekar ólíkar þó það sé viss þráður á milli þeirra. Hún hefur einnig samið tónlist bæði fyrir kvikmyndir og leikhús og komið fram með hinu ýmsa tónlistarfólki, en hvað ætli sé framundan í tónlistinni hjá henni?

,,Nú er ég að vinna í nýju efni og stefni á að gefa út lag eða lög á næstunni. Það er nú alveg kominn tími á það”

Nú hefur þú ferðast vítt og breitt um heiminn allan og spilað tónlist, bæði með þína eigin tónleika og sem upphitunaratriði fyrir Of Monsters and Men og Emiliönu Torrini, áttu þér einhverja uppáhalds minningu frá tónleikaferðalögum sem þú vilt deila með okkur?

,,Já, ég hef verið mjög lukkuleg með ferðafélaga í gegnum tíðina og farið á mörg mjög skemmtileg tónleikaferðalög. Allskonar ævintýri og hasar sem maður getur lent í.

Ein fyndin saga, er þegar ég fór á fyrsta tónleikaferðalagið mitt í Bandaríkjunum þá ferðaðist ég með hljómsveit og mikið af hljóðfærum og græjum. Ég var algjörlega óþekkt og átti að spila á litum stöðum hér og þar til að kynna efnið mitt. Þegar við lendum í New York og stefnan er tekin á fyrsta tónleikastað þá bíða okkar tvær hvítar lúxus limmósínur. Þá hafði fyrir mistök verið sendar tvær limmósínur í staðin fyrir tvo stóra leigubíla. Við vorum með svo mikið af hljóðfærum og græjum sem þurfti að koma á áfangastað. En þetta reddaðist og var þetta skemmtileg byrjun á ferðinni að láta keyra sig á fyrsta giggið í svona eðal vögnum, öll troðin undir og innan um græjurnar. Limmósínurnar skutluðu okkur svo á stað þar sem við spiluðum á pinkulitlum tónleika stað þar sem örfáir mættu.”

Mynd tekin á Heima tónleikunum

Það má líka segja að Lay Low hafi staðið fyrir einum stærsta viðburði sem haldinn hefur verið þegar hún hélt Heima tónleika (e. Live at Home) þar sem mörg þúsund manns víðsvegar um heim allan fylgdust með lifandi útsendingu frá tónleikum á heimili hennar í Ölfusinu árið 2012.

Við hverju mega áhorfendur búast á Hendur í höfn?

,,Ég ætla að fara svolítið yfir ferilinn og taka lög úr ýmsum áttum. Höfum þetta á persónulegu nótunum og ég er algjörlega opin fyrir óskalögum og spurningum úr sal.”

Miðasalan er á tix.is og er aðgangseyrir 3000 kr. Tónleikarnir hefjast kl. 21 þann 25. maí og rétt er að minna á borðapantanir á hendurihofn@hendurihofn.is fyrir þau sem vilja gæða sér á veitingum fyrir tónleika.