Baldur Þór nýr þjálfari Tindastóls

Baldur Þór við undirritun samningsins. Mynd: Tindastóll

Baldur Þór Ragnarsson er tekinn við liði Tindastóls í Domino’s deild karla í körfubolta en hann skrifaði undir þriggja ára samning við liðið í dag.

Þá mun Baldur jafnframt hafa yfirumsjón með styrktarþjálfun meistaraflokks kvenna og karla og verða yfirþjálfari yngri flokka Tindastóls ásamt því að stýra körfuboltaakademíu Tindastóls og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.

Baldur gerði frábæra hluti með Þórsara á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari og sló til að mynda Tindastól út í 8-liða úrslitum sælla minninga.

Í tilkynningu frá Tindastól segist Baldur vera spenntur fyrir verkefninu.

Það er mjög spennandi og krefjandi verkefni að taka við Tindastóls liðinu. Hér hefur verið vandað til verka í mörg ár og hlakka ég til að setja minn brag á liðið. Góðir leikmenn hafa komið upp í gegnum starfið hér seinustu ár og það verður gaman að vinna að því að koma fleiri leikmönnum upp í meistaraflokkinn í samvinnu við þjálfara yngri flokkana.

Ég hef mína hugmyndafræði sem ég vil koma í framkvæmd. Við viljum leggja mikið á okkur, búa til sterka menningu innan liðsins, vera einbeittir, ákveðnir en jafnframt óeigingjarnir og setja liðið og liðsheildina framar öllu. Það er mikil tilhlökkun að koma inn í þetta körfuboltasamfélag sem Sauðárkrókur er og hlakka ég mikið til samstarfsins með leikmönnum, sjálfboðaliðum og ekki síst stuðningsmönnum.