Leikmorgunn í Kiwanishúsinu frá 9-12 á morgun

Á morgun, sunnudaginn 26. maí, verður „Leikmorgunn“ fyrir börn á aldrinum 0-3 ára í Kiwanishúsinu í Þorlákshöfn frá klukkan 9-12.

Það eru þrjár mæður í Þorlákshöfn með börn á sama árinu sem standa að þessum viðburði, þær Júlía Káradóttir, Kolbrún Gunnarsdóttir og Ragnheiður Árnadóttir. „Okkur langaði að skapa ókeypis afþreyingu fyrir ung börn. Ákveðið var að prófa að halda einn viðburð til að kanna áhuga bæjarbúa.“

Mikið verður um að vera að sögn mæðgnanna. „Boðið verður upp á fría andlitsmálun og var Leikfélag Ölfuss svo almennilegt að leggja til andlitsmálninguna. Bókasafnið styrkti viðburðinn með útprentun á myndum til að lita. Í boði verður létt morgunhressing í boði Ella’s kitchen, Vífilfells og fyrirtækisins Bananar.“

Þær vilja vekja athygli á að börnin verða að vera í fylgd með fullorðnum. „Ef vel gengur er jafnvel stefnt næst að stærri viðburði fyrir breiðara aldursbil,“ segja þær að lokum.