Þollóween hlaut Hvatningarverðlaun Heimilis og skóla

Hluti hópsins sem skipulagði Þollóween veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu í dag

Skammdegishátíðin Þollóween hlaut Hvatningarverðlaun Heimilis og Skóla 2019 sem afhent voru af Lilju Dögg Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, við hátíðlega athöfn í dag. Athöfnin var haldin í Safnahúsinu á Hverfisgötu að viðstöddum fjölmörgum aðilum sem tilnefndir voru til verðlauna.

Í umsögn um verkefnið segir:

„Hópur foreldra stóð fyrir veglegri bæjarhátíð í samvinnu við skóla og stofnanir í Þorlákshöfn. Dagskráin samanstóð af viðburðum fyrir bæði börn og fullorðna sem dreifðust á heila viku.  Á dagskrá var m.a. „Hrollvekjusýning“ í Frístund og félagsmiðstöð, „Skelfileg skrautsmiðja“ í skólanum þar sem allir gátu komið og föndrað, skorið út grasker o.fl., „Ónotaleg sundstund“ í sundlauginni , „Afturganga“, gönguferð með leiðsögn þar sem hinar ýmsu furðuverur spruttu fram, „Grafir og bein“, vasaljósaleit fyrir yngstu börnin, „Þollóween ball“ fyrir 7. -10. bekk, „Reimleikar“, draugahús í félagsmiðstöð fyrir 1. – 10. bekk, „Grikk eða gott í Þorlákshöfn“ þar sem íbúar gátu boðið upp á sælgæti fyrir börnin, „Furðufatahlaup“ og „Taugaslakandi jóga“.

Verkefnið var unnið algerlega án styrkja og að frumkvæði þessara foreldra. Verkefnið vakti mikla lukku og unnið var með þemað í kennslu nemenda. Danskennari kenndi hryllingsdans, unnar voru hryllingssögur og margt fleira gert í skólanum. Hópurinn lagði á sig mikla vinnu og náði að skapa samheldni, samvinnu og skemmtun fyrir alla bæjarbúa en sérstaklega börn og fjölskyldur þeirra.“

Aðstandendur Þollóween vilja þó benda á að verkefnið hlaut styrki frá einstaklingum, fyrirtækjum og Sveitarfélaginu Ölfusi þótt það hafi farið af stað með tvær hendur tómar.

Aðstandendur Þollóween vilja einnig nota tækifærið og þakka enn og aftur öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við að gera þessa bæjarhátíð að því sem hún varð, þakka öllum þeim sem studdu við í formi styrkja, öllu því fólki sem var tilbúið að hjálpa og síðast en ekki síst öllum sem mættu og tóku þátt.

,,Það er einróma álit okkar sem að þessu stöndum að ykkar jákvæðu viðbrögð og svo þessi fallega viðurkenning sem hvatningarverðlaunin eru, blása byr í öll seglin sem eru á Þollóween skútunni og geta bæjarbúar byrjað að láta sér hlakka til Þollóween 2019!”