Slátturgengi Þorlákshafnar skorar á áhöfn Fróða í sjó-boðsundskeppninni – Leikreglur kynntar!

Áfram ganga áskoranirnar í sjó-boðsundskeppninni og nú er það fyrsta áhöfnin sem fær áskorun og er það áhöfn Fróða sem slátturgengi Þorlákshafnar skorar á. Það má fastlega reikna með því að Rúnar Gunnars, Svanur og fleiri hraustir menn taki þessari áskorun fagnandi og verði búnir að mynda lið í lok dags og það verður spennandi að fylgjast með því hver fær áskorun frá þeim.

Fram að þessu hafa áskoranirnar gengið á milli starfsfólks sveitafélagsins og eru komin samtals 5 lið nú þegar; frá leikskólanum, grunnskólanum, bæjarskrifstofunni, íþróttamiðstöðinni og nú síðast slátturgenginu. Það verður því spennandi að sjá hvaða stefnu þetta tekur og rétt að minna á að það geta allir skráð sig til leiks sem vilja, óháð því hvort áskorun berist.

Leikreglurnar í sjó-boðsundskeppninni eru þessar

Það synda tvö lið í einu, nema ef um oddatölu á liðunum er að ræða, þá verður síðasta sundhollið þrjú lið. Eins og í hefðbundnu boðsundi þá syndir einn í einu og næsti liðsmaður má hefja sundið þegar sá sem syndir snertir bryggjuna.
Tíminn byrjar að telja um leið og fyrsti sundmaður leggur af stað niður bryggjuna í átt að sjónum, hvort sem viðkomandi kýs að fara niður stigann eða stökkva út í sjó, það er frjáls aðferð.
Það verða í boði blautbúningar sem Jaðarsport leggur til, en kjósi fólk að synda án búnings þá eru gefin bónusstig fyrir það.
Synt verður frá Herjólfsbryggjunni að merktum punkti og aftur til baka. Gefist einhver liðsmaðurinn upp á miðri leið má sá næsti fara af stað en þarf þá að synda sína leið og leið þess sem gafst upp.
Tíminn verður tekinn frá því að fyrsti maður leggur af stað í sjóinn og þar til síðasti liðsmaður snertir bryggjuna. Það lið sem syndir á stystum tíma vinnur keppnina. Eins og áður sagði verða gefin bónus stig fyrir að synda án blautbúnings og verða þau 10, eða réttara sagt mínus 10, þar sem 10 stig verða dregin frá heildartíma liðsins fyrir hvern þann sem syndir án blautbúnings.

Í dag kl. 16 verður hægt að æfa sig að synda, búningar á staðnum sem og björgunarsveitin, svona til öryggis.