Magnaður fjórði leikhluti skóp sigur gegn Valsmönnum

Mynd: Bára Dröfn / Karfan.is

Mögnuð endurkoma Þórsara í fjórða leikhluta skóp sigur gegn Valsmönnum þegar liðin mættust í Domino’s deild karla í Icelandic Glacial höllinni í kvöld en lokatölur urðu 87-70.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og leiddu Þórsarar 38-37 þegar gengið var til búningsklefa í hálfleik.

Valsmenn byrjuðu þriðja leikhlutann af miklum krafti með tveimur þriggjastiga körfum og sigldu fram úr Þórsurum. Gestirnir leiddu með sex stigum eftir þriðja leikhluta 51-57.

Þórsarar voru aldeilis ekki af baki dottnir og byrjuðu fjórða leikhlutann af miklum krafti og komu sér aftur inn í leikinn. Ekki nóg með það heldur kafsigldu þeir Valsmönnum sem áttu fá svör við sóknarleik Þórsara sem unnu síðasta leikhlutann 36-13 og þar með 17 stiga sigur staðreynd.

Nýju erlendu leikmenn Þórs skiluðu flottu dagsverki í kvöld en Jerome Frink var stigahæstur á vellinum með 26 stig og Sebastian Mignani skoraði 10 stig, þar af voru átta þeirra skoruð í fjórða leikhlutanum og þá gaf hann einnig 5 stoðsendingar á þeim 20 mínútum sem hann spilaði.

Marko Bakovic var flottur í kvöld með 20 stig og 11 fráköst. Halldór Garðar skoraði 11 stig og gaf 5 stoðsendingar. Emil Karel bætti við 10 stigum og gaf 4 stoðsendingar. Dino Butorac skoraði 8 stig, tók 8 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Ragnar Örn skoraði 2 stig.