Kvótakerfið er eyðingarafl: Byggðirnar við Ölfusárósa hafa tapað 4,2 milljörðum

1982-84 var landaður afli í Þorlákshöfn Eyrarbakka og Stokkseyri 6,1%, 5,2% og 4,6% af heildarafla sem landað var á Íslandi, miðað við útflutningsverðmæti, að meðaltali um 5,3%. 2018 var þetta hlutfall komið niður í 2,1%. Svæðið hafði misst sem nemur 3,2% af heildarverðmæti landaðs afla. Útflutningsverðmæti landaðs afla á Íslandi var um 132,5 milljarðar kr. 2018 svo þetta jafngildir því að svæðið hafi misst um 4,2 milljarða kr. í útflutningsverðmæti, um 80% af sjávarútveginum sem var undirstaða undir byggðirnar alla síðustu öld.

Íbúar á svæðinu eru um 3100 í dag. Þetta högg jafngildir því samdrætti upp á 1355 þús. kr. á mann. Og ef við mælum það sem samdrátt í landsframleiðslu á svæðinu jafngildir það um 17% höggi, næstum tvöfalt meira en Íslendingar tóku á sig í kjölfar Hrunsins 2008. Og þetta er vanmat, því fall í útflutningstekjum hefur margfeldisáhrif, svo ætla má að höggið hafi jafngilt 30% samdrætti og þar yfir.

Hvað myndi það kosta íbúa þessa svæðis að kaupa kvóta til að geta byggt upp sjávarútveg eins og hann var fyrir kvótakerfi. Leiga á 3,2% af þorkígildistonnum kvótans kostar um 2,4 milljarða kr. á ári eða um 767 þús. kr. á hvert mannsbarn á svæðinu. Til að kaupa 3,2% af kvótanum þyrftu íbúarnir að reiða fram tæplega 35 milljarða kr. Það gera um 45 milljarðar kr. á hvert fjögurra manna heimili.

Þetta er umfang áfallsins sem kvótakerfið hefur verið fyrir byggðirnar við Ölfusárósa. Íbúarnir þar kannast ekki við besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi, eins og stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kalla íslenska kvótakerfið. Munurinn er sá að í þeirri stjórn sitja þeir sem sankað hafa að sér kvótanum, stjórnarmenn eru fulltrúar útgerða sem eignast hafa um ¾ af öllum kvóta. Þær hafa sótt hann til Vestfjarða, út á Reykjanes, norður á Húsavík og líka til íbúanna við Ölfusárósa.

Gunnar Smári Egilsson‎