Ölfus gengur til samninga við Hjallastefnuna

Á síðasta fundi bæjarráðs Ölfuss var samþykkt að ganga til samninga við Hjallastefnuna. Fyrir fundinn lá annars vegar afstaða fjölskyldu- og fræðslunefndar og hins vegar foreldraráðs vegna málsins en þau lýstu sig ekki andvíg áformum bæjarstjórnar að Hjallastefnan taki við rekstri leikskólans Bergheima í Þorlákshöfn.

Ekki er þó einhugur meðal foreldra barna og íbúa Þorlákshafnar um þetta mál en nú þegar þetta er skrifað hafa 97 einstaklingar skrifað undir undirskriftarlista með yfirskriftinni „Foreldrar andvígir yfirtöku Hjalla á rekstri leikskólans Bergheima“

Miklar umræður hafa átt sér stað í Facebook-hópnum Íbúar í Þorkákshöfn og Ölfusi allt frá því málið kom fyrst upp þar sem greinilega eru skiptar skoðanir um komu Hjallastefnunnar til Þorlákshafnar.