Hjartans þakkir

Sjálfskipuð gleðiskylda

Fáum ef nokkrum óraði fyrir því í upphafi árs að síðar á árinu yrði skylda að vera með grímu ef farið er niðu í Skála til að kaupa sér kók og prinspóló.  Að allt íþróttastarf yrði lagt af vegna ótta við veirusýkingu.  Að heimsóknir til aldraðra ættingja yrðu háð miklum takmörkum til þess að gæta öryggi þeirra.  Að börn gætu ekki sótt skóla, að allt skemmtanahald yrði lagt af og að takmarka þyrfti fjölda í jarðaförum.  Dæmin um hvað ástandið er fordæmalaust eru víða.

Starfsmenn og íbúar vandanum vaxnir

Þótt ástandið sé bagalegt og veruleg þreyta sé farin að sækja á þá hefur það engu að síður sýnt okkur hvað samfélag okkar er sterkt.  Við sem samfélag höfum fyrst og fremst tekist á við þetta af æðruleysi og yfirvegun.  Innviðir okkar hafa reynst vandanum vaxnir.  Það er því við hæfi að nýta þetta tækifæri og koma á framfæri kærum þökkum til starfsmanna og íbúa í Sveitarfélaginu Ölfusi fyrir þá samstöðu sem þeir hafa sýnt við þær áskoranir sem við nú stöndum frammi fyrir meðan COVID-19 faraldurinn gengur yfir.

Vel gert starfsmenn Ölfuss – fórnfýsi

Það er ekki sjálfgefið að starfsmenn íþróttahússins gangi til annarra starfa þegar starfsstöð þeirra er lokað vegna sóttvarna.  Þeir gera það samt.  Það er ekki sjálfsagt að skólafólki okkar takist að halda úti skólastarfi undir þeim miklu takmörkunum sem skólunum eru settir.  Þeim tekst það samt.  Það þarf útsjónasemi til að haga vöktum hafnarstarfsmanna þannig að hætta á krosssmiti milli starfsmanna sé lágmörkuð. Hún er til staðar.  Það þarf skilning á þörfum íbúa til að starfsmenn þjónustumiðstöðvar velji að hefja uppsetningu á jólaskrauti til að lýsa upp samfélagið.  Hann hafa þeir. Þannig væri hægt að þylja upp ótal ákvarðanir, stórar og smáar, í öllum stofnunum sveitarfélagsins. Við höfum einstaklega gott starfsfólk.

Vel gert íbúar – gleðiskylda

Öll þekkjum við hvernig „grímuskylda“ hefur verið tekin upp um allt land.  Sjálfsagt og eðlilegt er að við fylgjum henni.  Öllu magnaðra þykir mér ákvörðun íbúa hér í Ölfusi, og þá ekki síst í Þorlákshöfn, að taka upp sjálfskipaða „gleðiskyldu“.  Það þarf sannarlega að hafa dáldið fyrir gleðinni þessa dagana.  Þeim mun þakklátari er maður fyrir okkar hugmyndaríku, fórnfúsu og hæfileikamikilu íbúa sem ætíð eru tilbúnir til að gefa af sér.  Í raun svo mikið að maður lítur á það sem skyldu sína að taka þátt í gleðinni.  Maður setur á sjálfan sig „gleðiskyldu“.  Þollóween hátíðin, tónleikar „Hljómlistafélags Ölfuss“, leiðsögn á fjórhjólum, vefútsending frá körfuboltaleik og svo margt fleira eru dæmi um þetta.

Takk

Hafið miklar og góðar þakkir, þið sem auðveldið okkur hinum ástandið með þessum ríku gjöfum.

Það eru forréttindi að fá að taka þátt í samfélagi eins okkar.  Þessi mikla samstaða sem einkennt hefur undanfarna daga er einstök. Við vitum að ástandið er ekki búið.  Við vitum að framundan eru fleiri áskoranir sem koma til með að reyna áfram á okkar allt samfélag. Þá er gott til þess að vita að hér í Sveitarfélaginu Ölfusi höfum við á að skipa úrvalsfólki í öllum stofnunum og íbúa sem standa saman. 

Með það veganesti kvíði ég engu.

Ágætu íbúar og starfmenn Ölfuss, hafið miklar og góðar þakkir fyrir hvernig þið hafið stigið fram. Við klárum þetta saman.

Elliði Vignisson
bæjarstjóri