Mikill hiti á síðasta bæjarstjórnarfundi

Mikill hiti kom upp á síðasta fundi bæjarstjórnar Ölfuss á milli meirihluta og minnihluta í bæjarstjórn í umræðum um ný íbúðahverfi í Þorlákshöfn.

Bæjarfulltrúar O-listans harma að ekki hafi átt sér stað meiri umræður á vettvangi bæjarstjórnar um fyrirhuguð ný hverfi, annarsvegar austan Ölfusbrautar og hinsvegar vestan við Bergin. Sjálfstæðismenn hafna því hinsvegar að ekki hafi verið haft fullt samráð við kjörna fulltrúa lýsa furðu á bókun minnihlutans enda hafi fulltrúi hans í bæjarráði samþykkt málið þegar það kom til umræðu þar.

Móinn

Á fundi bæjarráðs 1. október síðastliðinn var samþykktur viðauki við eldra samkomulag um framkvæmdir í Móanum, austan Ölfusbrautar, við byggingar á íbúðarhúsnæði. Eldra samkomulagið sem áður var samþykkt einróma í bæjarstjórn kom til umfjöllunar þar sem nauðsynlegt reyndist að uppfæra dagsetningar vegna tafa sem varð á málinu vegna aðkomu eftirlitsaðila samkvæmt bókun meirihlutans. „Upprunalega samkomulagið, sem dagsett var 16. apríl 2019, gerði ráð fyrir að ferlið gagnvart Skipulagsstofnun og öðrum umsagnaraðilum tæki skemmri tíma en í ljós hefur komið og eru viðaukarnir gerðir annars vegar til að skerpa nánar á áfangaskiptingu verksins og hins vegar til að uppfæra dagsetningar. Þannig er miðað við að framkvæmdum við fyrsta áfanga verði lokið innan þriggja ára frá þeim tíma er deiliskipulagið fyrir reitina öðlast gildi og að heildarframkvæmd á öllu svæðinu verði lokið innan 10 ára,“ segir í fundargerðinni frá 1. október.

Íbúðahverfið Móinn.

Vildu nota tækifærið og endurskoða með tillliti til heildarendurskoðunar á aðalskipulagi

Bæjarfulltrúar O-listans, Jón Páll Kristófersson, Guðmundur Oddgeirsson og Þrúður Sigurðardóttir lögðu fram eftirfarandi bókun um Móann á síðasta fundi bæjarstjórnar.

„Við hörmum að ekki hafi átt sér umræða á vettvangi bæjarstjórnar þegar kemur að þessu stóra máli áður en þetta samkomulag var gert miðað við fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar.“

„Framlengingu á samkomulaginu og viðbætur við það hefði þurft að skoða í ljósi stöðunnar á húsnæðismarkaði hér í þéttbýlinu sem hefur breyst umtalsvert frá því að samkomulagið um viðkomandi svæði var gert á fyrri hluta síðasta árs. Við erum á engan hátt að segja að ekki eigi að halda áfram uppbyggingu á viðkomandi svæði í samstarfi við forsvarsmenn Hamrakórs, umfang verkefnisins hefði hins vegar þurft að skoða eins og fyrr segir í ljósi stöðunnar hér í þéttbýlinu. Einnig hefði þurft að endurskoða þetta m.t.t. heildarendurskoðunar á aðalskipulagi sveitarfélagsins og hvaða áherslur eigi að vera í uppbyggingu á íbúabyggð á aðalskipulagstímabilinu 2020-2032.“

Hafna því að ekki hafi verið haft samráð

Bæjarfulltrúar D-listans Gestur Þór Kristjánsson, Grétar Ingi Erlendsson, Kristín Magnúsdóttir og Steinar Lúðvíksson lögðu fram eftirfarandi bókun.

„Meirihluti Sjálfstæðisflokksins hafnar því að ekki hafi verið haft fullt samráð við kjörna fulltrúa. Þær minniháttar breytingar sem gerðar voru á samkomulaginu komu fyrir bæjarráð eins og lög gera ráð fyrir og fulltrúi minnihlutans tók þátt í afgreiðslu málsins án athugasemdar. Þær breytingar snéru fyrst og fremst að dagsetningum, tilkomnar vegna tafa sem urðu á málinu við vinnslu þess hjá eftirlitsaðilum svo sem Skipulagsstofnun.“

„Meirihluti Sjálfstæðisflokksins leggur mikið upp úr því að í framkomu sinni gagnvart aðilum sem vilja taka þátt í uppbyggingu í samfélaginu ríki traust og samstarfsvilji. Í því samhengi vekja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins athygli á því að tilgreint samkomulag var einróma samþykkt í bæjarstjórn og það því mjög óeðlileg framganga sveitarfélagsins að nota breytingar á dagsetningum vegna tafa á málinu til heildar endurskoðunar þess með ótilgreindum skaða fyrir samstarfsaðilann. Meirihluti Sjálfstæðisflokksins hvetur fulltrúa minnihlutans til að taka þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem nú er að eiga sér stað í sveitarfélaginu. Þar skiptir miklu að framkoma gagnvart samstarfsaðilum byggi á trausti, sanngirni og meðalhófi.“

Fulltrúar D-lista studdu afgreiðslu bæjarráðs um þennan lið fundargerðarinnar en Jón Páll Kristófersson og Guðmundur Oddgeirsson voru á móti og Þrúður Sigurðardóttir sat hjá.

Einnig deilt um Vesturberg

Síðar á fundi bæjarstjórnar kom til umræðu undirbúningur að skipulagi nýs hverfis, Vesturberg, vestan Þorlákhafnar. Áður hafði bæjarráð samþykkt fjárveitingu til verkefnisins en vísað því sem snýr að skipulagningu til umræðu innan Skipulags- og umhverfisnefndar.  Sú nefnd fjallaði svo um málið á fundi sínum 22. október síðastliðinn. Nefndin afgreiddi málið frá sér einróma með því að fagna áhuga á lóðum í Þorlákshöfn og ákvörðun um að nefndin muni vinna málið áfram í samræmi við hlutverk sitt og leggja til að meðal annars verði haldin samráðsfundur allra þeirra sem koma að málinu.

Minnihlutinn óskar eftir upplýsingum um kostnað og hvernig staðið var að forkönnun

Í umræðu um þessa hluti í bæjarstjórn taldi minnihlutinn farir sínar ekki sléttar hvað málsmeðferð varðar. Í bókun þeirra segir að bæjarfulltrúar O-listans hefðu viljað að opin umræða um málið hefði átt sér stað fyrr. Jón Páll Kristófersson, Guðmundur Oddgeirsson og Þrúður Sigurðardóttir lögðu fram eftirfarandi bókun undir þessum lið.

„Líkt og hvað varðar mál nr. 3 í fundargerð bæjarráðs frá 1. október þá harma bæjarfulltrúar O-lista að ekki hafi átt sér stað fyrr opin umræða um þetta mikilvæga mál m.a. á vettvangi bæjarstjórnar, skipulags- og umhverfisnefndar og í nefnd um heildarendurskoðun á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss.“

„Eins og kemur fram í drögum að skipulagslýsingu þá var viðkomandi aðila falið að vinna að þessu sumarið 2020. Greint er frá í bókun skipulags- og umhverfisnefndar frá 22. október, þegar málið kemur fyrst þar til umfjöllunar nefndarinnar, að forkönnun hafi verið unnin af umhverfis- og framkvæmdarsviði sveitarfélagsins áður en viðkomandi arkitektastofa var valin til verksins. Köllum við bæjarfulltrúar O-lista eftir að bæjarráð upplýsi hvernig staðið var að þessari forkönnun og hver kostnaðurinn er vegna þessa aðkeypta starfs við gerð viðkomandi skipulagslýsingar.“

Undrast framgöngu minnihlutans

Bæjarfulltrúar D-listans, Gestur Þór Kristjánsson, Grétar Ingi Erlendsson, Kristín Magnúsdóttir og Steinar Lúðvíksson svöruðu bókun minnihlutans með eftirfarandi bókun.

„Meirihluti sjálfstæðismanna lýsir undrun sinni á framgöngu minnihlutans í því sem snýr að uppbyggingu í samfélaginu. Það verður að teljast furðulegt að minnihlutinn fullyrði nú að bæjarráð hafi farið út fyrir svið sitt með tilgreindri umfjöllun. Eru bæjarfulltrúar minnihlutans hvattir til að lesa fundargerðir áður en þeir fjalla um þær, og sérstaklega áður en þeir bóka um þær. Í fundargerð bæjarráðs er einmitt sérstaklega tekið fram að bæjarráð hafi samþykkt erindið „að því leyti sem það fellur undir málefni bæjarráðs, og þar með að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun vegna kostnaðar.“ Að öðru leyti vísaði bæjarráð erindinu til faglegrar umfjöllunar í skipulags- og umhverfisnefnd, sem nú er kvartað undan að ekki hafi verið gert. Það er vandlifað þegar fundið er að því að málin séu ekki gerð á nákvæmlega þann máta sem þau voru gerð.“

„Þá er aftur vakin athygli á því að fulltrúi minnihlutans sat umræðuna í bæjarráði og samþykkti erindið án athugasemdar. Þá hvetja fulltrúar meirihluta Sjálfstæðiflokksins fulltrúa O-lista til að taka þátt í jákvæðum verkefnum eins og skipulagningu nýrra lóða í stað endalausra umkvartana.“

Hugnast ekki ólýðræðisleg vinnubrögð en vilja áfram gott samstarf

„Bæjarfulltrúar O-lista vísa algerlega á bug að þeir séu ekki reiðubúnir að taka þátt í öllum þeim jákvæðu verkefnum sem sveitarfélaginu býðst að taka þátt í og eru þátttakendur í nú þegar. Við höfum gert það eins og kostur er en við leyfum okkur hins vegar að gagnrýna hvernig staðið var að framangreindum málum. Okkur hugnast ekki þessi ólýðræðislegu vinnubrögð og vonumst til að samstarfið verði áfram gott og öflugt innan bæjarstjórnar Ölfuss líkt og verið hefur nær undantekningarlaust á yfirstandandi kjörtímabili. Við teljum ósanngjarnt og ómálefnalegt af fulltrúum D-lista að tala um að bæjarfulltrúar O-lista standi fyrir endalausum umkvörtunum.“

Telja fráleitt að vísað sé til ólýðræðislegra vinnubragða en taka undir vilja til áframhaldandi góðs samstarfs

„Meirihluti sjálfstæðismanna hafnar því með öllu að eitthvað sé athugavert við úrvinnslu þessa máls og telur fráleitt að vísað sé til ólýðræðislegra vinnubragða í máli sem samþykkt var án mótmæla fulltrúa minnihluta í bæjarráði. Vert er að benda á að áður hafði verið vakin athygli á því í umræðu bæjarstjórnar að lóðir væru að verða uppseldar. Starfsmenn sveitarfélagsins könnuðu verð á skipulagsvinnu og óskuðu eftir heimild bæjarráðs til þess að ráðast í skipulagsvinnu. Sú heimild var veitt og málinu vísað til umræðu í fagnefndinni. Þar er málið statt núna. Að öðru leyti tekur meirihluti Sjálfstæðisflokksins undir mikilvægi áframhaldandi góðs samstarfs allrar bæjarstjórnar og lýsa sig viljug til þess.“

Eins og í máli Móans þá studdu fulltrúar D-lista afgreiðslu bæjarráðs en Jón Páll Kristófersson og Guðmundur Oddgeirsson voru á móti og Þrúður Sigurðardóttir sat hjá.