Íbúum fjölgaði verulega og bæjarstjóri bjartsýnn fyrir komandi ár

Elliði Vignisson bæjarstjóri segir frá því á Facebooksíðu sinni í morgun að það hafi verið afar ánægjulegt að hefja fyrsta formlega vinnudag þessa árs á því að skoða íbúatölur og sjá að enn sé Ölfusið að eflast.  „Við hefjum þetta ár með 2.369 íbúa og enn eitt árið er fjölgunin milli 4% og 5%. Ef fram fer sem horfir mun íbúafjöldi fara yfir 2.500 á þessu ári. Miðað við áhugann og vöxtinn í atvinnulífinu er ekki ólíklegt að íbúar hér verði hátt í 4.000 innan 6 ára.“

Í færslu Elliða kemur enn fremur fram að „aldurspíramídinn sé hagstæður enda veiti hátt hlutfall fólks á vinnualdri aukinn möguleika til að veita fyrirtaksþjónustu“. Með færslunni fylgdi mynd sem sýnir að 68% íbúa sé á aldrinum 19 til 67 ára, 22% sé 18 ára og yngri og 10% sé eldri en 67 ára. Þar af 3% eldri en 79 ára.

Í viðtali við Hafnarfréttir segir Elliði að ástæðan fyrir fjölgun íbúa, og þá ekki síst yngri íbúa, sé margþætt. „Að mörgu leyti erum við að njóta góðs af stefnu borgarinnar þegar kemur að skipulagsmálum svo ekki sé nú talað um þann gríðarlega kostnað fyrir heimilin sem þeirri stefnu fylgir. Fjölskyldufólk er að velja í auknu mæli að búa utan borgarinnar og njóta þannig í senn hagkvæmara húsnæðis og þeirra miklu lífsgæða sem fylgja því að búa í minna og nánara samfélagi. Margir sem hingað flytja nefna einnig umferðarmálin í borginni, hærra þjónustustig hér og aukins aðgengis að náttúru. Þá er ekki nokkur vafi á að áherslur í atvinnumálum svo sem starfsemi Þekkingarsetursins Ölfus Cluster, vöxtur fiskeldis, tilkoma Einingaverksmiðjunnar, stækkun hafnarinnar og fyrirhuguð starfsemi BM Vallár eru sterkur vindur í segl okkar.“

Elliði segir að hann sé sannfærður um árið 2021 verði íbúum og fyrirtækjum í Ölfusi hagfellt en telur jafnframt að 2020 hafi hreint ekki orðið eins slæmt og hefði getað orðið. „Í raun getum við verið afar þakklát fyrir árið sem var að líða, ekki hvað síst þegar horft er til ytra umhverfisins og áhættunnar sem því fylgdi. Við sluppum mikið betur við hópsmit en margir aðrir og starfsmenn okkar sýndu magnað æðruleysi í framlínustörfum. Íbúum fjölgaði, atvinnutækifærum fjölgaði og þjónusta var aukin og það í dýpstu kreppu í sögu þjóðarinnar.  Ég er þess algerlega sannfærður að komandi ár verður ár sóknar og hamingju.  Þetta get ég sagt af fullu öryggi eftir að hafa kynnst þeim magnaða krafti sem íbúar hér búa yfir og þeim miklu tækifærum sem hér eru.“