Biluð hitaveitudæla á Bakka

Bilun hefur komið upp í dælu í annarri af tveimur borholum á Bakka þaðan sem heitu vatni er veitt til Þorlákshafnar. Skipta þarf um dælu og hefst vinna við það í dag og er áætlað að ný dæla verði komin í gagnið fljótlega eftir helgi gangi verkið vel.

Ein borhola annar ekki allri notkun Þorlákshafnar. Reynt verður eftir fremsta megni að minnka áhrif þessarar bilunar á almenna viðskiptavini hitaveitunnar. Búið er að draga verulega úr notkun hjá stórnotendum og unnið er að því að auka afköst dælu í þeirri borholu sem er í rekstri.

Veðurspá gerir ráð fyrir kuldakafla á næstu dögum, með allt að -10° frosti og vindi. Veitur biðja því viðskiptavini í Þorlákshöfn að fara vel með heita vatnið á meðan skipt er um dæluna. Um 90% af hitaveituvatni almennra viðskiptavina er notað til húshitunar og því skiptir afar miklu máli að fólk sé meðvitað um hvernig nýta á það sem best.

Fólk er hvatt til að gera eftirfarandi:

• Hafa glugga lokaða

• Hafa útidyr ekki opnar lengur en þörf krefur

• Láta ekki renna í heita potta

• Stilla ofna svo þeir séu heitir að ofan en kaldir að neðan

• Varast að byrgja ofna, t.d. með síðum gluggatjöldum eða húsgögnum

• Bæta ekki auka vatni inn á snjóbræðslukerfi

Starfsfólk Veitna biðst velvirðingar á þeim óþægindum er þetta kann að skapa