Elsa og Nóni eru hætt með spilakassa í Skálanum

Elsa og Nóni, rekstraraðilar Skálans í Þorlákshöfn, eru hætt að vera með spilakassa á staðnum af samfélagslegri ábyrgð.

Elsa Kolbrún Gunnþórsdóttir og Jón Jónsson voru með spilakassa í Skálanum þar til í mars og segir Elsa í samtali við Fréttablaðið að þau hjónin hafi lengi rætt um að hætta með kassana. „Svo þegar umræðan um spilakassa jókst í samfélaginu þá ýtti það við okkur,“ segir Elsa.

Samtök áhugafólks um spilafíkn hafa lagt fram þá kröfu undanfarna mánuði að spilakössum á Íslandi verði lokað og hefur fjöldi fólks deilt sögum sínum um spilafíkn og þá neyð sem hún skapar.

„Við sáum sama fólkið koma aftur og aftur og eyða miklum tíma í kössunum, þetta er bara mjög sorglegt og við ákváðum að þetta gæti ekki verið það sem reksturinn okkar stæði og félli með,“ segir Elsa en rekstraraðilar verslana fá greidda prósentu af því sem í kassana kemur og er því mikill fjárhagslegur ávinningur af spilakössunum.

Faðir Elsu þjáðist af spilafíkn og þekki hún því fíknina vel. „Sú reynsla og það að horfa upp á þetta alla daga var það sem togaði í mig, maður er bara með sting í hjartanu,“ segir hún.

Elsa og Nóni eru stolt af ákvörðun sinni að losa sig við spilakassana. „Þegar maður opnar kassana á kvöldin og sér upphæðirnar sem fólk er búið að dæla í þá, það er alveg hræðilegt, þetta eru miklir peningar og enginn græðir nema þeir sem reka kassana,“ segir Elsa að lokum.