Kæru íbúar

Eins og við óttuðumst þá hefur dagurinn í dag skilað fleiri staðfestum smitum en við vorum að vona.  Þegar þetta er skrifað er enn beðið eftir niðurstöðunum skimana en líklegt verður að telja að fjöldinn eigi enn eftir vaxa.  Hið jákvæða í stöðunni er þó að samfélagið er einbeitt í að ná tökum á stöðunni.  Það eru forréttindi að finna samstöðuna.

Samkvæmt opinberum tölum eru núna 19 íbúar í póstnúmeri 815 í sóttkví og 10 í einangrun.  Við vitum nú að þær tölur hafa hækkað.  Því miður hefur veirufjandinn stungið sér inn í hóp nemenda í grunnskólanum og hafa viðbrögð vegna þess verið mótuð.  Búið er að kortleggja ferðir nemandans og ákveða að nemendur í 6.bekk auk nokkurra starfsmanna verði í sóttkví fram á föstudag. Smitrakningateymið mun hafa samband við alla sem eiga að fara í sóttkví.  Aðrir nemendur eru beðnir um að vera heima út vikuna og hafa hægt um sig og lágmarka algjörlega samskipti við aðra.  

Enn hafa ekki komið upp smit í hópi nemenda í leikskólanum.  Við vonum að svo verði áfram.  Starfsmaður í hlutastarfi hefur greinst með veiruna og þeir starfsmenn sem voru í beinum samskiptum við hann komnir í sóttkví.  Sóttvarnaryfirvöld telja ekki ástæðu til að loka leikskólanum en í samráði við þau takmörkum við mjög starfsemi leikskólans og biðjum þá foreldra sem það geta að vera heima með börn sín.  Þannig náum við að þjónusta börn framlínustarfsfólks sem til að mynda halda gangandi heilbrigðisstofnunum, sambýlum og margt fl.  Þessar aðgerðir verða svo reglulega endurskoðaðar í ljósi nýrrar stöðu.

Með ofangreint í huga hafa eftirfarandi ákvarðanir verið teknar:

  1. Öll starfsemi í Þorlákshöfn mun einkennast af varúðarráðstöfun þessa vikuna.  Við ætlum að skipta í lægsta gír.  Öll sem eitt ætlum við að bera virðingu fyrir stöðunni.  Við höldum okkur sem mest heimavið og takmörkum nærveru utan „búbblunnar“ okkar.
  • Við ætlum að sýna yfirvegun og vera þakklát fyrir þekkingu og reynslu þeirra sem stjórna aðgerðum.  Það eru allir að gera sitt besta í mjög krefjandi aðstæðum. 
  • Allt hefðbundið starf í grunnskólanum fellur niður á morgun og sennilega út þessa viku.  Skólinn verður nýttur til skimunar. 
  • Starfsemi leikskólans verður mjög takmörkuð á morgun og sennilega út vikuna.  Foreldrar eru hvattir til að halda börnum sínum heima ef þau hafa á því nokkra möguleika.  Áhersla er lögð á að þjónusta börn framlínufólks.
  • Bókasafnið verður lokað, æfingar barna falla niður, aðgengi að íþróttaaðstöðu verður lágmarkað, bæjarskrifstofurnar veita eingöngu þjónustu i gegnum síma, tölvupósta og fjarfundi.
  • Þeim tilmælum er beint til þjónustufyrirtækja í bænum að herða mjög allar sóttvarnir.  Grímunotkun, handþvottur, sprittun og fl. er afar mikilvægt. 
  • Ráðist verður í skimanir undir stjórn rakningateymis okkar. Haft verður samband við þá sem boðaðir verða í skimun með SMS. Ráðgert er að skima á morgun miðvikudaginn 28. apríl fyrir alla sem voru útsettir þriðjudaginn 20. apríl. Nemendur í 4., 5. og 7. bekk eru allir boðaðir auk starfsmanna. Send verða sms seinna í kvöld eða í fyrramálið með boðun í skimun. Aðrir sem eru með einkenni eða hafa verið útsettir fyrir smiti geta einnig bókað sig í gegnum Heilsuveru.is. Gengið verður inn í skimun um rauðan inngang við Egilsbraut og út um gulan inngang við Íþróttamiðstöð. Við vonum að þetta gangi hratt og öruggleg fyrir sig. Þeir sem eru boðaðir í skimun á morgun fá SMS. Föstudaginn 30. apríl verður aftur boðið upp á skimun fyrir alla sem voru í sóttkví og aðra, nánar auglýst síðar.  

Kæru íbúar, við búum nú að því að vera með öflugt viðbragðsteymi almannavarna sem stjórnar aðgerðum. Það breytir því ekki að við berum öll ábyrgð og leggjumst á eitt við að hefta útbreiðslu. 

Enginn getur allt en allir geta eitthvað.

Klárum þetta saman,

Elliði Vignisson

Bæjarstjóri

ellidi@olfus.is

690-1599