Grunnskólinn lokaður og skert starfsemi á leikskólanum


Í gærkvöldi komu í ljós fleiri smit í Þorlákshöfn. Fyrir liggur að nokkrir úr foreldrahóp grunnskóla eru með staðfest smit. Enn eru þó ekki staðfest smit meðal nemenda en ljóst að a.m.k tveir nemendur hafa verið verulega útsettir fyrir smiti og komnir með einkenni. Þeir fara í sýnatöku á morgun.

Í samráði við rakningateymið hefur því verið ákveðið að loka grunnskólanum í dag, þriðjudaginn 27. apríl, á meðan verið er að ná utan um málið.

Að mati þeirra sem fara með ferðina er ekki talin ástæða til að loka leikskólanum. „Við viljum þó ganga lengra en skemmra og beinum því sterklega til foreldra sem það geta að HALDA BÖRNUM SÍNUM HEIMA á morgun, á meðan málin eru að skýrast,“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri.

„Ég vil beina því til allra að taka núverandi stöðu alvarlega með þeim úrræðum sem við þekkjum orðið vel. Drögum úr samneyti og sinnum persónulegum sóttvörnum.“

Mál þessi eru meðal forgangsatriða hjá viðbragðsaðilum. Núna í morgunsárið verður skoðað hvort ástæða sé til að skima einhverja hópa í skólanum, leikskólanum og eftir atvikum víðtækara.