Litla Kaffistofan lokar í sumar

Litla Kaffistofan við Suðurlandsveg lokar í sumar. Síðasti áætlaði opnunardagur verður 31. júlí næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Litla Kaffistofan sendi frá sér nú í kvöld.

„Þar sem rekstrarumhverfið fyrir lítil fyrirtæki er orðið mjög breytt, hefur sú ákvörðun verið tekin að loka Litlu kaffistofunni. Síðasti áætlaði opnunardagur verður 31. Júlí n.k. Fram að þeim tíma verður opnunartíminn alla virka daga frá kl. 9 til 14 meðan verið er að tæma lagerbirgðir. Hádegismatur verður óbreyttur, en minnkað úrval í brauði og kökum“, segir í tilkynningunni.

Litla Kaffistofan var stofnuð 4. júní 1960 og hefur verið einn elsti og vinsælasti áningastaðurinn við þjóðveg 1.