ÍRIS kemur í Þorlákshöfn

Ákveðið hefur verið að fjarskiptasæstrengurinn ÍRIS sem liggja mun milli Íslands og Írlands komi að landi í Sveitarfélaginu Ölfusi, nánar tiltekið norðaustan við Þorlákshöfn. Bæjarráð fjallaði um málið á seinasta fundi sínum og fagnaði framtakinu og sagði það í senn auka öryggi Íslands hvað varðar gagnatengingu erlendis sem og skapa Ölfusi og þá sérstaklega Þorlákshöfn tækifæri á sviði upplýsingavinnslu og rekstri gagnavera.

Elliði Vignisson bæjarstjóri sagði í viðtali við Hafnafréttir að hér væri um afar umfangsmikið verkefnið að ræða og kostnaðurinn við það væri undir 7,5 milljörðum. „Eftir þessa tengingu verður Ísland tengt beint við Írland en eins og margir þekkja þá eru þar sum stærstu gagnaver í heimi. Meðal þeirra eru Apple, Amazon, Facebook, Vodafone og fl.  Með auknu aðgengi að orku er nokkuð ljóst að Þorlákshöfn kann að verða afar áhugaverður staður til að staðsetja alvöru gagnaver sem reynir á upplýsingatækni og rekstur sem skapa störf og verðmæti.“

Eins og Hafnarfréttir hafa áður fjallað um er margt í pípunum hvað varðar uppbyggingu á sviði atvinnulífsins í Þorlákshöfn. „Með því að taka strengin að hér í bæjarhlaðinu okkar skapast einstakt tækifæri til rekstur gagnavera á þessum stað“, segir Elliði. „Við höfum í gegnum Ölfus Cluster verið að undirbúa stofnun grænna orku- og iðngarða með áherslu á hringrásarhagkerfi þar sem þar sem leitast er við að nýta auðlindastrauma sem allra mest. Það er von okkar að gagnaver geti orðið eitt púslið í þeirri mynd. Þekkt er að gagnaver þurfa mikið rafmagn til að knýja vélar sínar  og við kælingu fellur til mikill varmi sem til að mynda verður hægt að nýta í laxeldi, rekstur gróðurhúsa og fl.“ 

Samkvæmt upplýsingum frá FARICE er verkið á áætlun og ætti notkun strengsins að geta hafist fyrir árslok 2022.  Framleiðsla strengsins er langt komin og lagning hefst frá Þorlákshöfn næsta vor.