Hendur í höfn lokar: „Göngum frá borði full auðmýktar og þakklætis“

Kaffihúsinu og veitingastaðnum Hendur í höfn í Þorlákshöfn hefur verið lokað. Frá þessu greina hjónin Dagný og Vignir á Facebook síðu fyrirtækisins.

Hendur í höfn naut mikilla vinsælda, ekki bara hjá íbúum Þorlákshafnar, heldur fólki hvaðanæva af landinu enda var maturinn og þjónustan alltaf til fyrirmyndar hjá Dagnýju og hennar fólki.

„Því miður er ekki lengur rekstrargrundvöllur fyrir starfseminni og kemur þar margt til, ekki síst heimsfaraldur síðastliðin tvö ár. Uppbyggingin á fyrirtækinu var ákaflega skemmtilegt og gefandi verkefni og velgengnin framar öllum okkar vonum,“ segir í tilkynningu þeirra hjóna.

„Við viljum þakka öllum okkar góðu gestum og frábæra starfsfólki fyrir góða tíma síðastliðin níu ár og göngum frá borði full auðmýktar og þakklætis.“