Forsala hafin á glæsilega jólatónleika LÞ

Aðventan hefst með miklum glæsibrag í Þorlákshöfn þegar Lúðrasveit Þorlákshafnar heldur jólatónleika sína í íþróttahúsinu laugardaginn 27. nóvember.

Katrín Halldóra, sem stimplaði sig rækilega inn í hjörtu landsmanna í hlutverki Ellýjar í Borgarleikhúsinu, syngur með Lúðrasveitinni og einnig hinn margkrýndi söngvari ársins Valdimar Guðmundsson. Þau sjá líka um að kynna á milli laga og ljá viðstöddum þannig ekki aðeins sínar undurfögru raddir heldur einnig kímnigáfu sem þau eiga víst talsvert af bæði tvö.

Nú er hafin forsala sem stendur yfir fram á mánudaginn 25. október en þá er miðinn á 4900 kr. en almennt miðaverð er 5500 kr. Hér er sérstakur forsölulinkur: https://tix.is/is/specialoffer/gjitbgulh67z2/

Eins og þau þekkja sem hafa farið á stórtónleika hjá Lúðrasveit Þorlákshafnar áður þá verður hvergi sparað í umgjörð og glæsileika og því alveg víst að hinn eini sanni og margumtalaði jóla-andi verði allt um lykjandi og aldrei að vita nema hann fari heim með öllum viðstöddum.