Til hamingju með 70 ára afmælið Þorlákshöfn!

Þorlákshöfn er nefnd eftir Þorláki helga Þórhallssyni. Hann var biskup í Skálholti frá 1178 og fram á dánardægur 1193. Hann var tekinn í dýrlingatölu á Íslandi 1198 og á tvo messudaga á ári, dánardag sinn, Þorláksmessu á vetri 23. desember, og Þorláksmessu á sumri 20. júlí. Árið 1984 lýsti Jóhannes Páll páfi II því yfir að Þorlákur væri „verndardýrlingur Íslands“. Það fer tvennum sögum af því hvernig nafn Þorlákshafnar er tilkomið. Önnur sagan segir að staðurinn hafi fengið þetta nafn eftir að Þorlákur biskup steig þar á land þegar hann kom frá biskupsvígslu árið 1178. Hin sagan segir að eigandi jarðarinnar hafi í sjávarháska heitið á Þorlák helga sér til liðsinnis og svo gefið Skálholti jörðina. Talið er að áður hafi jörðin heitið Elliðahöfn.

Nú í desember eru 70 ár síðan flutt var inn í fyrstu hús hins nýja þéttbýlis í Þorlákshöfn. Fram að þeim tíma hafði þessi forna verstöð verið tvennt, bújörð og staður farandverkafólks á vertíðum.

Og það var einmitt vegna möguleika á hafnaraðstöðu sem Kaupfélag Árnesinga (KÁ) með Egil Thorarensen í fararbroddi, gjarnan kallaður faðir Þorlákshafnar, sá ljósið í Þorlákshöfn eða hafnarborg Suðurlands eins og hinn framsýni Egill sagði. Til þess að gera langa sögu stutta leiddi það til þess að Meitillinn sálugi var stofnaður fyrir tilstilli KÁ og Egils og hóf útgerð frá Þorlákshöfn 1950. Þá þegar var búið hanna skipulag fyrstu gatna og nýbyggðar því fólk hafði trú á svæðinu og hugmyndafræðinni. Til eru ótrúlega stórhuga frumteikningar og framtíðarsýn frá 5. áratug 20. aldarinnar sem sýna allt að 20.000 manna þéttbýli í Þorlákshöfn og einungis þjóðveg yfir Þrengsli en ekki Hellisheiði!

Sem fyrr var sagt var flutt  inn í fyrstu hús hins nýja þéttbýlis í desember 1951 og voru 11 manns með skráð lögheimili þar í árslok. Þessi hús voru og eru öll við B-götu eða Oddabraut eins og hún heitir í dag. Fyrst var flutt inn í B-6 og svo 4 og 2. Fyrsta skráða barn þorpsins flutti nýfætt og óskírt með foreldrum sínum þeim Garðari Karlssyni og Gyðu Sigurðardóttur strax árið 1951 og þetta „barn“, Siggi Garðars, býr enn í Þorlákshöfn sem og fleiri systkini hans, þeirra afkomendur og faðirinn Garðar en Gyða er látin.

Og boltinn rúllaði sannarlega. Ungt og stórhuga fólk sá þarna mikla atvinnumöguleika og tækifæri í miðri þáverandi eyðimörkinni fyrir opnu hafi. Frumbyggjar Þorlákshafnar voru ungir og ákafir og þegar kom að því að nefna götur hins nýja þorps – sem í fyrstu voru bara þrjár eða vísir af þremur götum öllu heldur – lá beint við að gefa þeim fyrstu stafina í stafrófinu þ.e.a.s. A-, B- og C-götur sem í dag heita Egilsbraut, Oddabraut og Reykjabraut, eiginlega New York-style! Árið 1974 hafði þorpið stækkað mikið og heiti gatna komin að bókstafnum P. Þá fannst forráðamönnum komin tími til þess að láta af götunöfnum kenndum við bókstafi, þetta væri orðið þorp með þorpum. Fengu þá allar götur þorpsins nýtt nafn og engar götur sem byggðust eftir það kenndar við bókstaf. Gárungarnir hafa gjarnan sagt að það hefði helst verið ótti við að WC-gata yrði til ef ekki yrði látið af þessum nafngiftum. Mörgum þykir vænt um þessi gömlu götunöfn og sl. áratug má segja að fólk sjái betur fegurðina og sérstöðuna í þessum bókstafsgötunöfnum og er þeim flaggað æ meir. A, B og C heitin hafa haldist í talmáli frumbyggja og afkomenda þeirra og búið er að merkja götur gamla hverfisins, eins og Brautirnar eru kallaðar, með bæði gömlu nöfnunum og þeim nýju.

Þorpið er löngu orðið bær og eyðimörkin vin. Fjölmörg hverfi hafa risið í áratuganna rás og ný eru á teikniborðinu. Íbúafjöldi nálgast 1900 manns. Samvinnukraftur sá er einkenndi frumbyggjanna er enn við líði, sá kraftur getur áorkað miklu og má ekki tapast úr samfélagssálinni með stækkandi bæ. Höldum áfram að vera drífandi og samtaka, höldum áfram að ala upp samtaka driffjaðrir Höldum áfram að taka vel á móti nýju fólki sem vill taka þátt.

Að lokum vill undirrituð benda á úti-sögusýningu við Selvogsbraut þar sem farið er yfir 70 ára sögu Þorlákshafnar í léttu máli og myndum og hentar fólki á öllum aldri. 

Ágústa Ragnarsdóttir, íbúi á C-19 og frá Þorlákshöfn þó aðflutt sé!