Sveitarfélagið Ölfus býður upp á beina útsendingu frá Þorláksmessutónleikum Jónasar Sig

Í tilefni af 70 ára afmæli Þorlákshafnar býður Sveitarfélagið Ölfus íbúum og öðrum landsmönnum upp á beina útsendingu frá Þorláksmessutónleikum Jónasar Sig í Gamla bíó. Með framtakinu vill Sveitarfélagið þakka íbúum og velgjörðarfólki um land allt þann kraft og samhug sem á stuttum tíma hefur orðið grundvöllur að blómlegu samfélagi með rík tækifæri til framtíðar. Í þeim anda vill Sveitarfélagið gefa fólki tækifæri til að minnast þessara tímamóta í lok afmælisársins og njóta tónlistar Jónasar í flutningi hans og þeirra frábæru tónlistarmanna sem hann starfar með.

Jónas Sigurðsson er eins og flestir vita uppalinn í Þorlákshöfn og sækir þangað sköpunarkraft og orku. Jónas vann til að mynda plötuna „Þar sem himin ber við haf“ með Lúðrasveit Þorlákshafnar sem hann var meðlimur í á sínum yngri árum.

Jónas er fullur tilhlökkunar og sagðist að þessu tilefni ætla að taka sér góðan tíma til að undirbúa skemmtilegar sögur frá uppvaxtarárum sínum í Þorlákshöfn, en Jónas er einmitt þekktur fyrir að gleyma sér í löngum og góðum sögum á milli laga, öllum til mikillar ánægju enda hann ekki einungis stórkostlegur tónlistarmaður heldur einnig frábær sögumaður.

Þorláksmessutónleikar Jónasar Sig verða sýndir á RÚV 2 kl. 21 á Þorláksmessukvöldi.

Sveitarfélagið Ölfus óskar íbúum og öðrum landsmönnum gleðilega hátíðar og farsæls komandi árs og biður þá um að njóta útsendingarinnar og minnast með því farsællar sögu samfélagsins í Þorlákshöfn.